131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:06]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Staða innflytjenda virðist fara versnandi um þessar mundir, a.m.k. ef mið er tekið af þeim viðhorfum sem birtast gagnvart þeim hér á landi í nýlegri könnun sem gerð var fyrir Alþjóðahúsið um viðhorf Íslendinga gagnvart innflytjendum. Nýbúar eins og ég vil nefna það fólk sem hingað kemur vinnur mjög þarft verk í okkar samfélagi og nærtækt er að nefna að íslenskur sjávarútvegur byggir starfsemi sína að miklu leyti á starfsframlagi fólks sem kemur erlendis frá.

Við getum tekið annað dæmi sem eru framkvæmdir við eina stærstu atvinnuuppbyggingu Íslandssögunnar á Austurlandi en hún er að miklu leyti knúin áfram af fólki sem er af erlendu bergi brotið. Og ef við horfum til þessara atvinnugreina, sjávarútvegsins og uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi, þá halda þær atvinnugreinar m.a. uppi tekjum þjóðarbúsins og í hvað fara þeir fjármunir sem þessar atvinnugreinar skapa? Jú, þeir fara að miklu leyti í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, velferðarkerfisins og menntakerfisins. Því er það ágæta fólk sem hingað er komið mjög nauðsynlegt til þess að við getum rekið þjóðarbúið með jafnmyndarlegum hætti og raun ber vitni. Það er því skylda íslenskra stjórnvalda, skylda okkar að taka vel á móti þessu fólki og fræða það fólk sem hér ætlar að setjast að um íslenskt samfélag og íslenska tungu.

Það er jafnframt mikilvægt, hæstv. forseti, að heildaryfirsýn yfir málaflokk nýbúa sé á einni hendi og því þarf jafnframt að breyta því oft virðist það vera svo að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera þegar kemur að þessum málaflokki. Ég tek undir flokksþingssamþykktir Framsóknarflokksins frá árinu 2003 um að flytja beri málefni nýbúa yfir á eina hendi, yfir í ráðuneyti félagsmála. Þannig verður stefnumótun og framkvæmd í málaflokknum mun markvissari en hún er í dag.