131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:10]

Hilmar Gunnlaugsson (S):

Hæstv. forseti. Það er áhyggjuefni ef Íslendingar eru orðnir neikvæðari eða fordómafyllri gagnvart útlendingum en þeir voru fyrir fimm árum og ekki vil ég gera lítið úr þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir. Þó verður að hafa í huga að fjöldi útlendinga hefur aukist gríðarlega á allra síðustu missirum og er sú aukning væntanlega að hluta einungis til nokkurra ára.

Því má halda fram að breytta afstöðu í dag miðað við stöðuna fyrir fimm árum sé hægt að skýra í ljósi þeirrar aukningar sem orðið hefur á innstreymi erlends vinnuafls á síðustu fimm árum. Það er í mínum huga ekki sjálfgefið að þar sé um frekari fordóma að ræða heldur einungis nýja mælingu á breyttum aðstæðum. Á þetta einkum við það atriði að færri séu jákvæðir í garð þess að leyfa fleiri útlendingum að vinna á Íslandi.

Það er ljóst hverjum sem það vill sjá að ákveðinnar tvöfeldni gætir í íslensku samfélagi þegar kemur að málefnum útlendinga. Þannig hygg ég að flestir telji sig mannréttindasinna og séu þeirrar skoðunar að allir eigi að hafa jafnan rétt og engum skuli mismunað vegna kynþáttar, þjóðernis o.s.frv. Í þeim efnum hefur ríkisstjórnin verið gagnrýnd fyrir að gæta ekki að réttindum útlendinga og láta aðrar reglur gilda um þá en þegna landsins. Á sama tíma eða því sem næst er ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir að aðhafast ekkert til að hefta frjálsa för launþega, ekki síst í tengslum við stórframkvæmdir á Austurlandi. Þá á að koma í veg fyrir að útlendingar geti neytt réttar síns og unnið þar á miklu betri kjörum en þeir hafa í heimalandi sínu. Vissulega hefur verið bent á að þau kjör séu ekki talin mjög góð hér á landi heldur rétt umfram lágmarkskjör. Í málatilbúnaði sínum hefur stjórnarandstaðan þá alið og nært þau sjónarmið t.d. að útlendingar séu að hafa störf af Íslendingum eða að þeir haldi launagreiðslum hjá Íslendingum í skefjum.

Í ljósi þeirrar hörðu umræðu sem orðið hefur um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir á síðustu árum verð ég að segja, hæstv. forseti, að ég er ekki hissa þó að jákvæðni mælist nú minni gagnvart útlendingum. Ég fullyrði að þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem harðast hafa gengið fram í þeirri umræðu bera þar mikla ábyrgð. Það er beinlínis verið að skapa óánægju hjá landanum og ala þannig á fordómum.