131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:21]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hundrað þúsund saklausir borgarar hafa fallið í átökunum í Írak. Hundrað þúsund, saklausar konur, börn og unglingar, sem fá ekki lengur notið þess kærleika og ástar sem þau bjuggu við af hálfu systkina, foreldra, ömmu, afa og vina. Hundrað þúsund írakskir borgarar hafa fallið í átökum sem njóta stuðnings 30 staðfastra, viljugra þjóða.

Ég sem Íslendingur finn til í hjarta mínu fyrir að vera hluti af þjóð sem hægt er að segja með gildum rökum að beri á vissan hátt siðferðilega ábyrgð á átökunum í Írak. Við Íslendingar berum okkar siðferðilegu skuld gagnvart Írökum, gagnvart þeim sem eiga um sárt að binda af völdum átakanna, vegna þess að við erum í hópi þessara staðföstu, viljugu þjóða.

Herra forseti. Þetta mál er eitt hið umdeildasta á Vesturlöndum í dag. Það er fátt sem tekist er á um af meiri krafti en stuðning vesturveldanna, stuðning fjölda þjóða við innrásina í Írak. Það er sárt til þess að vita, herra forseti, að Íslendingar voru aldrei spurðir um hvort þeir vildu styðja innrásina. Hæstv. ráðherrar brutu lög til að koma fram vilja sínum. Eftir símtal sendiherra Bandaríkjanna var þessi ákvörðun tekin í skjóli náttmyrkurs. Það var aldrei spurt um vilja þjóðarinnar og aldrei spurt um vilja þingsins.

Það sem mér finnst blóðugast og vera til skammar, herra forseti, er að ráðherrabekkirnir eru auðir. Ekki einn einasti ráðherra situr hér til að vera við þessa umræðu. Þó var það þannig að þetta mál, sem ég flyt hér fyrir hönd stjórnarandstöðunnar ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, var fyrsta málið sem lagt var fram af hálfu stjórnarandstöðunnar. Á þetta mál var lagður mestur þungi og mest áhersla og ekki að ófyrirsynju, herra forseti. Okkur blæðir öllum í hjarta og hug fyrir að hafa með þessum hætti verið knúin til þess óviljug að taka þátt í því að bera á byrgð á innrásinni í Írak án þess að vera nokkru sinni spurð, vera meinað um sjálfsagðan lögvarinn rétt á að fá að ræða málið við ráðherrana sem tóku þessa ákvörðun. Margsinnis, herra forseti, hefur þetta mál átt að koma á dagskrá og því hefur jafnharðan verið frestað vegna þess að ráðherrarnir hafa skotið sér undan því að vera viðstaddir.

Það er auðvitað skiljanlegt að hæstv. utanríkisráðherra, sem hefur átt við erfið veikindi að stríða, hefur ekki getað verið við þessa umræðu. Við í stjórnarandstöðunni höfum tekið fullt tillit til þess og höfum látið það koma fram að við höfum ekki krafist návistar hans meðan hann gat ekki sótt þing af fullum krafti fyrr í haust.

En það er hins vegar ekki hægt að verja það að hæstv. forsætisráðherra fer undan á flótta. Hann leggur ekki í það að vera viðstaddur hér í salnum og ræða þessa tillögu. Hann skammast sín fyrir að eiga þátt í að binda Ísland til stuðnings við innrásina í Írak, hann skammast sín fyrir það að hafa augljóslega brotið gegn þingsköpum með því að meina okkur þingmönnum, sem tengjumst utanríkismálanefnd, að ræða þetta. Hæstv. forsætisráðherra þorir ekki að koma og ræða þetta mál við þingmenn. Mér finnst það ákaflega miður, finnst það vera til skammar og mér finnst það honum og flokki hans til vansæmdar. Ég fer fram á það, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki í dag. Við getum frestað henni og tekið upp síðar þegar hæstv. forsætisráðherra treystir sér, hefur safnað nægilegum kjarki til að vera við umræðuna.

Herra forseti. Stöðugt berast nýjar fregnir af ógnarverkum í Írak. Ég sagði áðan að hundrað þúsund saklausir borgarar hefðu fallið í Írak í átökum, hundrað þúsund manns sem bera enga ábyrgð á því sem þar hefur gerst. Þetta er að vísu umdeild tala og Bandaríkjamenn hafa sagt að sennilega sé hún ekki rétt. Ég vil þess vegna að það komi alveg skýrt fram hér að þessi tala er fengin úr rannsókn bresku læknasamtakanna sem birtu hana í þekktasta læknatímariti veraldar, The Lancet, fyrir skömmu. Engum hefur tekist að bera brigður á að þessi tala sé rétt.

En bara í dag, á þessum morgni, erum við að fá fregnir af nýjum grimmdarverkum. Við heyrðum í morgun fregnir af því að búið væri að frelsa Falluja. Og hvernig frelsuðu þeir Falluja? Þeir frelsuðu Falluja með því að jafna borgina við jörðu. Þeir frelsuðu Falluja með því að fremja stríðsglæpi. Þeir frelsuðu Falluja með því að drepa fanga sem lágu særðir í blóði sínu á gólfinu í moskunni í Falluja.

Hverjir bera ábyrgð á þessu, Bandaríkjamenn, Bretar? Allar þær 30 staðföstu, viljugu þjóðir sem lögðu blessun sína yfir innrásina með einum eða öðrum hætti bera siðferðilega ábyrgð. Mig kennir til að vera Íslendingur og vera knúinn til að bera þessa ábyrgð. Ég vil fá minn rétt til þess að ræða þetta við þá ráðamenn sem brutu lög til þess að binda okkur til stuðnings við þessi verk. Það er alveg ljóst að þau voðaverk sem framin hafa verið í Írak eru á ábyrgð allra þessara þjóða. Það kemur alveg skýrt fram, herra forseti, í lögum um þingsköp að það er ekki hægt að taka ákvarðanir sem varða meiri háttar utanríkispólitísk mál án þess að það sé rætt og ráðslagað við utanríkismálanefnd.

Það er gleðiefni að hér í salnum situr a.m.k. háttvirtur formaður utanríkismálanefndar, Sólveig Pétursdóttir. Það væri gaman að fá að heyra álit hennar sem formanns á því hvort þarna hafi verið farið að lögum.

Hvernig má það vera, herra forseti, að menn taki svona ákvörðun, sem hlýtur að teljast einhver mikilvægasta ákvörðun sem Íslendingar hafa tekið á síðustu árum að því er varðar utanríkisstefnu, án þess að það sé rætt við nokkurn einasta mann? Frjáls, fullvalda þjóð lætur sér sæma að sendimaður erlends ríkis hringi í forsætisráðherrann sem hringi síðan í utanríkisráðherrann, sem tekur pólitískt flipp-flopp á einu kvöldi, breytir afstöðu sinni og samþykkir það að við, vopnlaus, herlaus þjóð, tökum þátt í að styðja innrás í Írak.

Var þetta rætt í ríkisstjórninni? Nei, það liggur fyrir að þetta var aldrei rætt í ríkisstjórninni. Var þetta rætt í þingflokkum stjórnarinnar? Nei, það liggur fyrir að þetta var aldrei rætt í þingflokkum stjórnarliðsins. Það voru tveir menn, hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, sem tóku þessa ákvörðun einungis, að því er virðist, á þeim grundvelli að þeir ræddu við bandaríska sendiherrann, og fengu einhvers konar upplýsingar frá honum. Við vitum ekki hvaða upplýsingar það voru en á þeim grundvelli voru Íslendingar píndir til að styðja þetta stríð.

Það er alveg sama hvað menn segja. Við berum okkar mórölsku ábyrgð, íslensk stjórnvöld, líka við á þinginu sem aldrei hefðum nokkru sinni fallist á að ljá þessu stuðning okkar. Íslenska þjóðin ber sína ábyrgð. Ég vil ekki bera þessa ábyrgð og ég vil fá minn rétt til að ræða það við þá menn sem því miður tóku þessa ákvörðun með einhverju ólýðræðislegasta móti sem hægt er að hugsa sér. Ég man ekki eftir því að frá því að ég settist á Alþingi árið 1991 hafi ég nokkru sinni verið í návígi við menn sem hafa tekið jafnmikilvæga ákvörðun og gert það með jafnólýðræðislegum hætti. Þetta er sorglegt, og það er sorglegt að í þroskuðu lýðræði skuli þetta gerast. Þess vegna, herra forseti, höfum við í stjórnarandstöðunni sameinast um að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar. Í henni eru nokkrir liðir sem við teljum nauðsynlegt að Alþingi samþykki á þessu skeiði atburðarásarinnar. Í fyrsta lagi viljum við, vegna þess hvernig þróunin hefur verið og vegna þess hvernig þessi ákvörðun var tekin, að Íslendingar afturkalli með formlegum hætti stuðning sinn við innrásina í Írak. Það er augljóst að það er ekki hægt úr þessu með öðru móti en því að Alþingi álykti að lýsa því yfir að þessum stuðningi sé lokið og að Íslendingar séu ekki lengur í hópi hinna svokölluðu viljugu þjóða.

Ég geri mér grein fyrir því að eins og málum er komið núna skiptir þetta í reynd ekki máli. Hér er fyrst og fremst um táknræna afstöðu að ræða en ég vil, fyrir mína hönd og þeirra sem ég tala fyrir, að nafn Íslands verði máð út af þessum lista. Ég vil ekki lifa við þá skömm að ég beri einhverja ábyrgð á því sem er að gerast í Írak og a.m.k. vil ég fá að sýna það hér í umræðum og með atkvæði mínu að ég neitaði að bera þá ábyrgð.

Það hefur líka komið fram í umræðum um þetta að þessir tveir ráðherrar sem ég nefndi áðan, hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra, tóku ákvörðun sína á grundvelli einhvers konar upplýsinga. Það þarf að kanna með hvaða hætti þessi ákvörðun var tekin. Er sú atburðarás sem ég var að lýsa hér áðan rétt? Henni hefur ekki verið neitað. En það þarf að kanna hana og það þarf að skoða með hvaða hætti þessir ráðherrar, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem þá fór með utanríkismálin, ræktu sína sjálfsögðu og sjálfstæðu rannsóknarskyldu gagnvart þeim upplýsingum sem komu fram. Tvennt var fyrst og fremst borið fyrir þjóðina sem átti að réttlæta stuðninginn, í fyrsta lagi að órækar sannanir lægju fyrir um það að gereyðingarvopn væru í Írak og í öðru lagi að órækar sannanir lægju fyrir um að Írak væri vígahreiður samtaka sem tengdust alþjóðlegum hermdarverkasveitum eins og al Kaída.

Við vitum það nú vegna þess að rannsóknir hafa farið fram í krafti sérstakra rannsóknarnefnda, bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi, að þetta var tóm vitleysa. Þetta var della. En við vitum líka að núverandi hæstv. forsætisráðherra vildi allt fram á síðasta kvöldið þegar ákvörðunin var tekin gefa vopnaeftirlitssveitum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ganga úr skugga um það hvort gereyðingarvopn væri að finna eða ekki í Írak. Við munum líka að rétt áður en ráðist var inn í Írak 20. mars komu fram yfirlýsingar frá Hans Blix yfirmanni eftirlitssveitanna og hans næsta undirmanni um að ólíklegt væri að þessi vopn væri að finna þar. Þá verðum við að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stóð á því að hann skipti um skoðun? Hvernig stóð á því að hann hætti við þá afstöðu að leyfa Hans Blix og eftirlitssveitunum að fá meiri tíma til að ganga úr skugga um þetta? Hvaða upplýsingar hafði hann undir höndum sem réttlættu þetta flippflopp hjá hæstv. núverandi forsætisráðherra? Með hvaða hætti gegndi hann sinni sjálfstæðu rannsóknarskyldu? Hann verður t.d. að svara því hvort honum hafi ekki komið til hugar, sökum fyrri afstöðu, að hafa samband við Hans Blix og spyrja hann út í þetta. Hvað var það sem knúði hann til þessa máls og rak hann til þessarar ákvörðunar?

Sömuleiðis hefur núna komið í ljós að skömmu eftir að hæstv. forsætisráðherra tók við núverandi embætti sagði hann að þegar hann horfði til baka væri hann þeirrar skoðunar að hann hefði fengið rangar upplýsingar. Þetta er ákaflega mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst því yfir að innrásin í Írak hafi brotið gegn stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og verið ólögmæt. Ég sem íslenskur alþingismaður krefst þess að fá upplýsingar um hver það var sem blekkti núverandi forsætisráðherra til að styðja innrás sem fól í sér lögbrot. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra skuldi okkur skýringar. Fjarvera hæstv. forsætisráðherra frá þessari umræðu sýnir hins vegar viðhorfið og hún lýsir engu öðru en sekt. Hæstv. forsætisráðherra gerir sér augljóslega grein fyrir því að honum hafi orðið á alvarleg mistök.

Ég tel, herra forseti, að við þurfum að upplýsa þetta mál og það er ekkert að því að íslenska þingið samþykki að fara í sérstaka rannsókn á þessu, alveg eins og Bretar gerðu, alveg eins og Bandaríkjamenn gerðu. Þær rannsóknir leiddu til þess að nýjar upplýsingar komu fram sem kollvörpuðu fyrri staðhæfingum ráðamanna í þessum ríkjum sem notaðar voru til réttlætingar innrásinni.

Herra forseti. Þess vegna höfum við, þessir þrír þingmenn, formenn stjórnmálaflokka og stjórnarandstöðunnar, lagt fram tillögu þar sem lagt er til að Alþingi lýsi yfir að Íslendingar afturkalli stuðning sinn við innrásina í Írak og séu ekki lengur í hópi hinna svokölluðu viljugu þjóða og í öðru lagi að sett verði á laggirnar nefnd sjö þingmanna til að kanna aðdraganda og ástæður þess að íslenska ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við innrásina.