131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:01]

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað staðreynd að þegar ákvörðun um innrásina var tekin var talið að ástandið í Írak væri ógn við heimsfriðinn. Hv. þm. verður að líta til baka. Ég held að það væri líka gott að háttvirtur þingmaður mundi rifja upp þær deilur sem áttu sér stað í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og enn fremur þær ítrekuðu ályktanir frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kom að þessi hætta væri fyrir hendi.

Það er að mínu mati afar undarlegt að háttvirtur þingmaður, sem á sæti í utanríkismálanefnd, skuli tala með þessum hætti um málið. Hún á að vita betur.