131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur að hún sagði að við Íslendingar værum ekki í stakk búnir til að vefengja upplýsingar meintra bandamanna okkar í árásarstríðinu gegn Írak, að við hefðum ekki leyniþjónustu. Var formaður utanríkismálanefndar með þessu að viðurkenna að við Íslendingar hefðu fengið rangar upplýsingar um ástand mála í Írak þegar ákvörðun um innrásina var tekin?

Mig langar að spyrja um annað, þ.e. að hún fullyrti að uppbyggingarstarf í Írak væri hafið. Mig langar til að benda á að í sjónvarpinu um helgina var viðtal við unga íslenska konu sem nýkomin var frá Basra. Hún hafði heimsótt tengdafjölskyldu sína og verið þar í tvær vikur. Fólkið þar, fólkið hennar, sagði henni að þar væri ekkert uppbyggingarstarf hafið. Búið væri að sprengja borgina sundur og saman og þau byggju við mikla neyð. Þau vildu óska þess að hún hefði komið þangað fyrir þremur árum þegar allt var í lagi. Þá var Saddam Hussein enn við völd.

Mig langar spyrja: Hvaða sannanir hefur hv. þm. Sólveig Pétursdóttir fyrir því að uppbyggingarstarf sé hafið í Írak? Hefur hún komið þangað nýlega? Hefur hún eitthvað í hendi sem hún getur sýnt okkur til að sanna að orð hennar eigi við rök að styðjast?