131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:15]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga hafa borist fréttir af stríðsglæpum í íröksku borginni Falluja þar sem fyrir viku síðan bjuggu 300 þús. manns. Enginn veit hversu margir óbreyttir borgarar voru þar þegar allsherjarárás bandarískra og írakskra hersveita hófst fyrir sjö dögum. Ekki er vitað um mannfall en talað hefur verið um tölur allt frá 30 þús. upp í 100 þús. Fyrir árásina var skrúfað fyrir vatn og rafmagn til borgarbúa. Hjálparstarfsmönnum var meinaður aðgangur að borginni og allur flutningur hjálpargagna inn í Falluja var bannaður. Fyrsta takmark árásarliðsins var að ná aðalsjúkrahúsi borgarinnar á vald sitt til að koma í veg fyrir að fréttir bærust þaðan af mannfalli. Sprengjum og stýriflaugum hefur verið skotið á borgina af handahófi dögum saman svo að þar stendur bókstaflega ekki steinn yfir steini. Nú er taugaveiki að breiðast út í Falluja. Þetta framferði herliðsins brýtur gróflega í bága við alþjóðalög og sáttmála um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.

Þessi árás, líkt og aðrar árásir innrásarliðsins, fer fram með stuðningi og vilja íslenskra stjórnvalda. Þess vegna er ábyrgð okkar Íslendinga mikil.

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þessum stríðsglæpum og krefst þess að ríkisstjórn Íslands geri slíkt hið sama, opinberlega og á alþjóðavettvangi.

Af þessu tilefni vil ég vekja athygli á bréfi sem borgaryfirvöld í Falluja skrifuðu aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, 14. október. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í Falluja hafa Bandaríkjamenn búið til óljósan skotspón sem heitir al Zarqawi. Næstum ár hefur liðið þar til þessi málamyndaástæða fyrir árás á borgina var búin til. Alltaf þegar þeir eyðileggja húsin okkar, moskurnar, veitingastaðina, drepa börn og drepa konur segja þeir að þeir hafi gert árangursríka árás á menn al Zarqawis. Við þekkjum ekki til þessa manns. Við vitum ekki til þess að hann sé í borginni okkar. Ef svo er, þá er hann hér ekki á okkar ábyrgð vegna þess að við viljum engin tengsl við ómannúðarlegar aðgerðir sem eru við hann tengdar.“

Þetta var bréf frá borgaryfirvöldum í Falluja, borginni þar sem andófið og andstaðan við Saddam Hussein á valdatíma hans var alltaf hvað mest í Írak. Nú er andstaðan þar við innrásarherliðið og þá fer það sínu fram á þann hátt sem við nú verðum vitni að.

Í Falluja og í Írak eiga sér stað stríðsglæpir sem jafna má við það sem gerðist á tímum nasista. Þeir báru sig líkt að og bandarísku stríðsglæpamennirnir gera núna. Þeir skutu og drápu fólk af handahófi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist í Falluja. Fyrir nokkrum vikum voru fjórir bandarískir hermenn myrtir þar. Lík þeirra voru svívirðilega leikin. Hefndin var árás á borgina þar sem fólk var drepið af handahófi, 700 manns. Konur, karlar og börn lágu í valnum. Í huga minn er greypt myndin af föður sem stóð með sjö ára dóttur sína, líkið af henni sundurskotið. Hann hét hefndum.

Síðan segir formaður utanríkismálanefndar Alþingis: Við getum ekki látið sem ekkert sé.

Ætla menn að þegja þegar þetta gerist á okkar ábyrgð? Að sjálfsögðu á að skipa rannsóknarnefnd sem fer yfir málin. Fyrr mætti nú vera. Ég spyr um alla þá sem fram hafa komið á Alþingi og talað um sjálfstæði þingsins og að efla beri það gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hvar eru þeir nú? Nú reynir á að einhver vilji sé að baki þessum yfirlýsingum.

Hv. formaður utanríkismálanefndar sagði að árásin á Írak á sínum tíma hefði verið gerð með skírskotun í samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er rétt. Það var gert. Það var skírskotað til fyrri samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Árásin var hins vegar ekki á grundvelli samþykktar öryggisráðsins og hún fór fram gegn ráðleggingum þeirra fulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem önnuðust vopnaleit í Írak. Nú hefur komið í ljós að efasemdir þeirra voru réttar og að byggt var á upplognum sökum. Nú kemur hv. formaður utanríkismálanefndar Alþingis og segir að við verðum að treysta á leyniþjónustu samstarfsríkja okkar. Ég á eftir að trúa því að íslenska ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér þori ekki að láta rannsaka þetta mál. Ætla menn virkilega að láta það undir höfuð leggjast? Hvað hafa menn að fela? Má ekki rannsaka málið? Má ekki ganga úr skugga um hvað er rétt og hvað rangt?

Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að leiðrétta missögn sem mér varð á í upphafi máls míns þar sem ég talaði um mannfall í Falluja, nefndi þar háa tölu, 30–100 þús. manns. Það var sú tala sem ég ætlaði að nefna um þann fjölda sem talið er að sé í borginni, fjölda óbreyttra borgara. Um mannfallið vita menn ekki. Eitt vita menn þó, í Falluja er núna verið að fremja stríðsglæpi á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar. Ég segi ekki Íslendinga — þetta er á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar.