131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:25]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir sem ég hlustaði á varðandi viðskiptabannið gegn Írak voru starfsmenn í mannúðarhjálp Sameinuðu þjóðanna sem störfuðu í Írak og sögðu af sér hver á fætur öðrum þegar það varð ljóst, og öllum sem vilja vita var ljóst, að viðskiptabannið á Írak hafði valdið dauða mörg hundruð þúsund manna. Ég hlustaði líka á Íslendinga sem unnu þar í hjálpar- og uppbyggingarstarfi. Þau sögðu slíkt hið sama. Þetta var fólkið sem ég hlustaði á.

Hafði ég einhver ráð til að losna við Saddam Hussein? Nei, ég kunni engin ráð við því fremur en ég kunni ráð við því á níunda áratugnum þegar hann naut stuðnings sömu aðila og gerðu síðan innrás í landið, sömu aðila og studdu hann þegar hann réðst með eiturvopnum gegn Írönum og Kúrdum. Það voru Bandaríkjamenn og Bretar. (Gripið fram í.)

Ég spyr núna, vegna þess að ég vil tala um daginn í dag líka — ég skal tala um fortíðina en tölum um daginn í dag líka núna: Kann hv. þm. Einar K. Guðfinnsson einhver ráð til að losna við stríðsglæpamenn á borð við George Bush sem fer núna drepandi og myrðandi í Falluja? Hvaða ráð kann hann til að losa okkur úr slagtogi við þessa menn? Hvaða ráð kann hann til að stöðva blóðbaðið og stríðsglæpina sem nú eru framdir á ábyrgð íslensku ríkisstjórnarinnar í Írak?