131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:27]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hv. þingmanni ákaflega hreinskilnislegt svar. Þetta mál snýr auðvitað ekki bara að nútímanum, eins og hv. þm. vakti réttilega athygli á, heldur líka fortíðinni. Við stóðum hér frammi fyrir þeirri staðreynd að einn mesti harðstjóri a.m.k. seinni hluta 20. aldar var við völd í Írak, var þjóð sinni hættulegur, (ÖJ: Hver er þín ábyrgð?) var umhverfi sínu hættulegur (ÖJ: Hver er þín ábyrgð núna?) ... (Forseti hringir.) hv. þingmaður, ég er ekki að biðja um að þaggað sé niður í hv. þingmanni, mér finnst bara gaman að því þegar hv. þingmaður (ÖJ: Gaman að því að drepa fólk.) er með þessi ...

Virðulegi forseti. Nú vil ég gjarnan að hæstv. forseti taki afstöðu til þessa máls.

(Forseti (BÁ): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Ég vil bara þannig að það komist til skila segja að hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði fram í og lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi að ég hefði gaman af því að drepa fólk. (Gripið fram í.)

Hv. þm. hefur einfaldlega svarað spurningu minni ákaflega skýrt. Hann kunni engin ráð. Hann vildi með öðrum orðum una því að þessi harðstjóri væri við völd í Írak um ókomin ár þrátt fyrir að það hafi legið fyrir á þeim tíma hvernig hann væri að leika þjóð sína og nágrannaþjóðir, þrátt fyrir að það hafi legið fyrir að hér fór fullkominn harðstjóri fram. Hv. þm. endurtók einfaldlega gömlu lygarnar um það að viðskiptabannið ylli dauða hundruð þúsunda manna þegar það liggur fyrir að það var harðstjórinn sjálfur sem olli þessum hildarleik sem fram fór í hans eigin landi.

Hv. þm. spurði mig einnar spurningar, og hún var þessi: Hvernig vil ég bregðast við?

Það sem ég vil auðvitað gera er að það nái fram sem þjóðir heimsins eru að reyna að gera núna, að stilla til friðar í Írak, tryggja að hægt verði að koma á borgaralegu samfélagi, tryggja að hægt sé að standa þannig að málum, virðulegi forseti, að hægt sé að láta fara fram lýðræðislegar kosningar þannig að menn nái fram þjóðarvilja, þannig að fólkið í Írak geti talað sínu máli og ráðið sínum ráðum í fyrsta skipti frá því að þessi harðstjóri tók við völdum sem hv. þm. hefur nú greint frá að hann hafði engin ráð til að koma frá, og vildi greinilega ekki koma frá.