131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[15:56]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Málið sem hér er til umræðu og er flutt af þremur núverandi og fyrrverandi þingflokksformönnum Samfylkingarinnar er gott mál sem snertir störf Alþingis mikið og vonandi taka allir þingmenn og flokkar þátt í umræðunni hérna á eftir. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, rakti rökin fyrir þessu máli mjög vel en ég ætla að tæpa á nokkrum þáttum sem hún hafði ekki tíma til að fjalla um.

Í hnotskurn má segja að með þessu frumvarpi sé verið að leggja til að starfshættir Alþingis séu færðir til nútímans. Það eru engin rök fyrir því fyrirkomulagi sem hér er uppi og miðast við sauðburð annars vegar og göngur og réttir hins vegar. Núverandi forseti hefur staðið mjög dyggan vörð um þetta fyrirkomulag og í sjálfu sér er ekkert út á þá afstöðu hans til þinghaldsins að setja, að það miðist við göngur og réttir að hausti og sauðburð að vori. En ég held að þau annars ágætu dægraskipti hafi voðalega lítið með hinn almenna þingmann og hinn almenna borgara lengur að gera og orðið vel tímabært að breyta fyrirkomulaginu í þinginu og að margt muni batna í kjölfarið.

Í greinargerðinni segir að ekki sé verið að leggja til með beinum hætti að þingfundum fjölgi enda er það ekki meginmálið. Það er verið að færa starf Alþingis yfir á eðlilegan vinnutíma þannig að það nái yfir tíu mánuði ársins, þingið taki sér síðan eðlilegt hlé yfir hásumarið en starfi þess á milli með þingfundum, nefndarfundum, kjördæmavikum og með ýmsum öðrum hætti, það hafi miklu hærra borð fyrir báru til að ræða og afgreiða þingmannamál.

Ég ætla einmitt að staldra örlítið við þann punkt af því að hér er lagður fram mikill fjöldi þingmannamála. Að þau séu aldrei afgreidd út úr nefnd eða til 2. umr. hefur valdið því að þingmenn leggja fram mikið flóð fyrirspurna, sem er í sjálfu sér ekkert út á að setja þar sem þetta er afleiðing starfshátta Alþingis. En hins vegar drukkna þær hver í annarri eins og við sjáum t.d. á morgun á fyrirspurnadegi en þá verður mikið flóð, gæti staðið í fjórar til fimm klukkustundir, af því að haldið verður áfram eftir kl. 18 til að reyna að grynnka á bunkanum.

Að sjálfsögðu er það lýðræðislegur réttur allra alþingismanna og kjósenda þeirra að mál sem þeir leggja fram, þingsályktunartillögur og frumvörp, séu afgreidd úr nefndum eftir umsagnir og umræður, ræddar hér aftur og síðan afgreiddar frá þinginu þannig að Alþingi allt greiði atkvæði um hin fjölbreytilegu mál þingmanna. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði. Það er starf löggjafans í hnotskurn, ekki að stimpla stjórnarfrumvörp á elleftu stundu, fyrir jól og um miðjan maí. Það eru ákaflega undarleg og ámælisverð vinnubrögð. Þetta fyrirkomulag setur að mínu mati Alþingi að mörgu leyti niður.

Fólk verður mismikið vart við störf Alþingis nema hvað varðar utandagskrárumræður og almennar umræður um málefni dagsins. Það er að sjálfsögðu hið besta mál af því að Alþingi er málfundur sem á að spegla samfélagið á hverjum tíma. En almenningur heyrir svo til aldrei af þeim þingmannamálum og málflutningi þingmanna nema í tengslum við afgreiðslu ráðherra og nefndarformanna og staðgengla þeirra á stjórnarfrumvörpum. Það er að fáránlegt fyrirkomulag og það kristallar það hvernig þinghaldið er.

Þau stjórnarfrumvörp sem ríkisstjórnin ætlar að fá í gegnum þingið fyrir jól koma inn í desember. Nú erum við að ræða þingmannamálin, í október og nóvember. Þau hverfa síðan út, stjórnarfrumvörpin hrannast inn og eru afgreidd nánast á sólarhringalotum þótt kannski hafi eitthvert lát orðið á frá því sem var fyrir einhverjum árum. En það skiptir ekki máli. Þetta eru vond vinnubrögð sem eiga sér enga stoð í nútímanum, eru ekki nútímastarfshættir. Alþingi á að sjálfsögðu að starfa í takt við annað í samfélaginu, byrja á haustin, vinna með hléum og öllum þeim afbrigðum og frávikum frá þingfundum sem á þarf að halda og gera síðan eðlilegt hlé yfir sumarið. Fyrst og fremst þarf það að starfa eftir nútímalegum og eðlilegum háttum.

Hérna er rakið mjög vel hvernig upplýsingabyltingin og breytingar í samfélaginu hafa breytt starfi þingmannsins og löggjafans mjög svo til hagsbóta fyrir þingmenn. Hún gefur fjölmörg tækifæri til að breyta starfsháttum þingsins. Þannig mætti einnig segja að tíminn frá því að þingi lýkur í maí og þangað til það byrjar aftur 1. október sé býsna illa nýttur. Að sjálfsögðu nýta margir þingmenn tímann ágætlega og sinna störfum sínum, semja þingmannamál og hitta kjósendur. En störf þingsins á þeim tíma eru engin, ef svo má segja, nema eitthvað sérstakt komi upp og einstaka nefnd sé kölluð saman til að ræða eitthvert akút og brýnt mál. Annars starfar Alþingi bókstaflega ekki á þessum langa tíma, í þrjá til fjóra mánuði. Þó koma til frávik eins og þegar fjölmiðlafrumvarpið var samþykkt öðru sinni og síðan dregið til baka í sumar, sem var alveg sérstakur kafli í sögu þingsins en lýsir því ágætlega hve þröngur stakkur þinginu er sniðinn og hvernig það þarf að bregðast við þegar eitthvað gerist í samfélaginu.

Það var nefnt hvernig kjördæmafyrirkomulagið kallar á breytta starfshætti Alþingis. Fyrir nokkrum árum var samþykkt mjög vond stjórnarskrárbreyting þar sem arfavitlaus kjördæmaskipan var fest í lög og færð í stjórnarskrá af þinginu. Þótt vel megi færa rök fyrir því að að einu leyti sé þetta kjördæmafyrirkomulag betra en hið fyrra, þ.e. að því leyti að atkvæðarétturinn er eitthvað jafnari. En það er önnur umræða. Kjördæmafyrirkomulagið er vont og vitlaust og því á að sjálfsögðu að breyta við fyrsta tækifæri. En meðan þetta vitlausa fyrirkomulag er uppi þá kallar það á breytta starfshætti þingsins. Á meðan þingið starfar í belg og biðu án mikilla hléa frá 1. október og fram í maí þá gefast þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna, það háttar eitthvað öðruvísi til um þingmenn suðvesturhornsins, fá tækifæri til að sinna hinum víðfeðmu kjördæmum að einhverju marki, fyrir utan tvær kjördæmavikur, eina á hvoru tímabili.

Þetta mál er mjög brýnt og það verður gaman að heyra viðhorf stjórnarsinna til nútímavæðingar á starfsháttum þingsins sem og þingmanna annarra flokka. En ég fagna þessu máli og vona að þingið beri gæfu til að afgreiða það út úr nefnd og til 2. umr. síðar í haust.