131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:05]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er með naumindum að ég hafi nokkru við að bæta eftir þessar yfirgripsmiklu ræður sem háttvirtir þingmenn hafa flutt um gagnsemi þessa góða máls.

Ég er þeirrar skoðunar að margt sé hægt að gera til að færa Alþingi og starfshætti þess til nútímalegra horfs. Eitt af því sem hægt er að gera er að dreifa starfstíma þingsins yfir árið, láta það koma saman oftar en sitja skemur í einu. Rökin sem að þessu hníga eru margvísleg. Ég tala sem ungur faðir tveggja barna og er þeirrar skoðunar að eitt af því sem þinginu hefur ekki tekist á síðustu árum, meðan kröfur til fjölskylduvænleika hafa aukist, sé að mæta þeim kröfum.

Þingið er ekki vinnustaður sem ýtir undir ástríkt fjölskyldulíf. Það er mjög vægt til orða tekið að halda því fram. Til þess að draga úr álaginu sem hér rís oft eins og holskefla yfir menn og fjölskyldufólk þá væri hægt að fara þá leið að dreifa álaginu yfir lengri tíma. Án efa mundi það skipta miklu máli.

Ég tel að ein röksemdin fyrir samþykkt þessa frumvarps sé yfirlýstur vilji núverandi og fyrrverandi forseta Alþingis til að haga starfsháttum þingsins þannig að það falli betur að nútímalegu lífi fjölskyldna í landinu.

Fleiri röksemdir er að sönnu hægt að tína til vegna þessa máls. Ein er sú að í vaxandi mæli eru gerðar kröfur til þingmanna um að þeir efli og rækti tengsl við kjósendur. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir drap á það að til að svara þeirri kröfu hafi þeir sem ráða starfsemi þingsins tekið upp kjördæmavikur. Þær hafa gefist vel. Þörfin fyrir slíkan tíma sem tekinn er skipulega frá til að gefa þingmönnum færi á að heimsækja kjördæmin og rækta þessi tengsl er meiri eftir kjördæmabreytinguna sem illu heilli var samþykkt hér um árið. Kjördæmabreytingin hefur leitt til þess að menn hafa miklu stærri kjördæmum að sinna heldur en áður. (MÁ: Er erfiðara að sinna kjördæmunum í Reykjavík núna en áður?)

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal.)

Ég veit ekki, herra forseti, hvort túlka megi frammíkall háttvirts þingmanns, sem tilheyrir Reykjavíkurkjördæmi suður, sem einhvers konar efasemdir um þetta frumvarp en ég mundi í hans sporum, með tilliti til þeirra mætu kvenna sem flytja þetta mál, ekki hætta mér út í slíkt. (MÁ: Ég segi ekki orð.)

Með því að taka upp það fyrirkomulag sem reifað er í þessu frumvarpi væri einmitt hægt að hafa kjördæmavikurnar fleiri eða tímann rýmri sem gefinn er á meðan þing situr til að tengjast kjördæmum og íbúum þeirra betur. Ég held að þetta skipti miklu máli.

Síðast en ekki síst þá finnst mér önnur röksemd styðja þetta mál. Þingstarfið og þinghaldið hefur í vaxandi mæli þróast með þeim hætti að þingmenn notfæra sér þá möguleika sem þingsköp gefa þeim til þess að taka upp ýmis álitamál og umdeild mál sem koma upp í samfélaginu. Ég tel að það sé mjög í þágu lýðræðisins. Fulltrúalýðræðið hefur fært okkur, hinum kjörnu fulltrúum, þær skyldur að túlka með röddum okkar viðhorf þeirra kjósenda sem hafa beint okkur inn á þing í álitamálum sem upp koma. Við gerum það eftir því sem við getum. Við þingmenn eigum í reynd að túlka þá strauma sem leika um þjóðlífið.

Á tímum vaxandi fjölmiðlunar bíða kjósendur oft eftir því að fá að heyra álit og röksemdir þeirra fulltrúa sem kjörnir hafa verið á þing varðandi ýmis mál. Af þeim sökum tel ég að það sé í þágu hinnar seinni tíma þróunar á lýðræðinu að þingið sitji sem lengst og komi sem oftast saman þannig að það hrannist ekki upp ýmiss konar mál sem þingið ætti í raun að taka á að bragði en hefur ekki tækifæri til þegar menn loksins koma saman, kannski að loknu sumri eða að loknu löngu hléi eins og oft er yfir hátíðir. Málin eru þá gjarnan komin í þá stöðu að það er erfitt að taka þau upp. Ég held að það geti verið erfitt fyrir þjóðarsálina að ekki sé hægt að leiða þau út með umræðu hér á þingi. Oft er það þannig að umræða í samfélaginu endar hér, byrjar hér og endar hér ef um er að ræða minni háttar ágreiningsmál. Með minni háttar málum á ég við þessi pólitísku dægurmál sem hingað skolar á stundum. Þetta finnst mér enn ein röksemdin fyrir þessu góða máli.

Ég er almennt þeirrar skoðunar, herra forseti, að forsetar þingsins ættu að leita eftir viðhorfum þingmanna sem hér sitja, sumir hafa setið hér lengi, til þess hvernig megi breyta starfsháttum þingsins þannig að það svari betur kröfum fólksins í landinu, kröfum breytts og flóknara þjóðfélags, en líka þörfum okkar sem á Alþingi sitjum.

Þá kem ég aftur að upphafi máls míns, þ.e. fjölskylduvænleika Alþingis sem vinnustaðar. Ég hef á ævi minni unnið á mörgum vinnustöðum. Það er bara í einu starfi sem mér hefur þótt erfiðara að vera sem hluti af fjölskyldu, þ.e. þegar ég vann sem ungur maður sem sjómaður og þurfti að vera fjarri heimili mínu allt upp í þrjár eða fjórar vikur. Alþingi kemst næst sjómennsku að þessu leyti, sérstaklega ef menn búa nú fjarri Alþingi sjálfu, í öðrum landshluta. Þá er þetta eins og að fara á vertíð, þegar menn eru að ljúka fjárlögum eða þegar verið er að ljúka þingstörfum á vorin. Fjölskyldufeður eða -mæðurnar, eftir atvikum, fara að heiman, kveðja börn sín og maka og snúa ekki til baka fyrr en eftir nokkrar vikur. Vinnunni er þannig háttað á þessum stað að það er ekki nokkur von til þess að menn komist til síns heima, svo einhver mynd sé á því, meðan á slíkum vinnutoppi stendur.

Þetta frumvarp, ef samþykkt verður, yrði liður í að draga úr þessu. Þetta frumvarp er skref í átt að því að gera Alþingi að nútímalegri vinnustað sem hentar betur þörfum þeirra sem vinna á honum, ekki bara þingmanna heldur líka þeirra 100 starfsmanna sem þingið hefur í sinni þjónustu. Ég held líka að það henti betur þörfum samfélagsins eins og það hefur þróast.