131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:12]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að eiga enn og aftur frumkvæðið að því að leggja fram frumvarpið sem við ræðum hér um, um samkomudag Alþingis og starfstíma þess. Ég held að þeir sem hér starfa séu flestir sammála um að þessu þurfi að breyta. Þess vegna er það svolítið undarlegt að ekkert skuli gerast í þeim efnum. Við höfum talað mikið um að það þurfi að gera breytingar á þessu, ekki síst þeir sem koma nýir inn á þing sem bregður svolítið við að sjá þá starfshætti sem hér eru tíðkaðir, starfshætti sem miðast við fyrirkomulag sem hentaði á síðustu öld, meira að segja frekar á fyrri parti hennar en þeim seinni.

Áður var þjóðfélagið þannig að fjölmargir sem hér störfuðu höfðu það sem aukastarf. Þetta var ekki þeirra aðalstarf. Aðalstarf þeirra fólst gjarnan í því að vinna í sveitum landsins við búskap. Menn þurftu að komast heim til þeirra árstíðabundnu verka sem því fylgja. Starfstími Alþingis, eins og hann er í dag, miðast við þann veruleika.

Eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir rakti ágætlega í framsögu sinni eru aðstæður allt aðrar í dag. Hlutverk Alþingis er auk þess allt annað og enn viðameira en það var á síðustu öld, að ég tel. Það er ekki síst þess vegna sem við þurfum að aðlaga starfstíma þingsins að nútímanum.

Ég held að þetta verkefni snúist um marga þætti. Það snýr ekki aðeins að okkur sem hér störfum, að starfstíma okkar og hvernig okkur fer best úr hendi að sinna hlutverki okkar heldur snýst það líka um hlutverk Alþingis sem stofnunar í samfélaginu, sem æðstu stofnunar ríkisins eins og hún er skilgreind í stjórnskipunarréttinum. Það er fáránlegt, í ljósi þess að Alþingi er ætlað að hafa eftirlitshlutverk og aðhaldshlutverk með framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma, að starfsáætlun Alþingis miðist við að rödd Alþingis þagni algjörlega fimm mánuði samfellt á ári hverju. Fimm mánuði samfellt er þessu aðhaldshlutverki nánast kippt úr sambandi.

Við þekkjum það sem hér störfum að ef þingmenn vilja koma einhverju á framfæri sem þeir hafa tekið eftir í meðförum framkvæmdarvaldsins er mikill munur á því hvort þing er starfandi eða ekki. Hér er sá vettvangur sem þessi stofnun hefur, og þeir sem hér starfa, til að sinna þessu mikilvæga hlutverki sínu. Þetta hverfur nánast í þá fimm mánuði sem Alþingi starfar ekki. Við getum einfaldlega ekki haldið svona áfram miklu lengur. Þjóðþingin allt í kringum okkur hafa verið að laga sig að nútímanum í þessum efnum og okkur er ekkert að vanbúnaði að gera það líka.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist aðeins á það að fyrrverandi forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, hefði lagt í það mikla vinnu að endurskoða þingsköp Alþingis, m.a. með þetta í huga. Það var reyndar þverpólitísk vinna. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar allra flokka sem þá voru á þingi, ef ég man rétt. Þessi vinna liggur fyrir og í henni er að finna mjög margar góðar tillögur en því miður reyndist ekki vilji hjá núverandi forseta til að fylgja þeirri vinnu úr hlaði og klára hana. Mér þykir það mjög miður því engum er hagur í því fyrirkomulagi sem við höfum í dag, nema ef vera kynni framkvæmdarvaldinu sem slíku. Því hentar kannski ágætlega að hafa þingið heima fimm mánuði samfellt á hverju ári, plús þann tíma sem við erum í jólahléi sem er líka upp undir mánuður oft og tíðum, jafnvel meira.

Þetta snýst þannig um hlutverk Alþingis sem stofnunar. Þetta snýst líka um gæði löggjafans. Við erum að afgreiða lög frá Alþingi undir mikilli pressu vegna þess að þegar gusan kemur frá framkvæmdarvaldinu sem allt snýst hér um brestur stíflan, þ.e. þegar frumvörpin koma úr Stjórnarráðinu. Þá hlaupum við hér um til að reyna að fylgja því eftir, taka þau til umræðu og afgreiða þau. Það er þá sem tarnirnar koma. Auðvitað bitnar það á gæðum lagasetningar þegar við erum að vinna hér, og starfsfólk Alþingis, undir gríðarlega mikilli tímapressu sem er í raun og veru alger óþarfi í langflestum tilvikum. Í þessu felst ákveðin slysahætta, enda hefur verið bent á það af hálfu umboðsmanns Alþingis að hér eru gallar í lagasetningu t.d. algengari en annars staðar á Norðurlöndum. Það er líka algengara að lög brjóti hér í bága við stjórnarskrána.

Þetta hefur reyndar lagast nokkuð í seinni tíð. Eins og hér hefur verið rakið hefur öll aðstaða þingmanna til þess að undirbúa og vinna mál og öll aðstaða hér í þinginu stórlega batnað hvað starfsmenn varðar og möguleika til þess að láta skoða mál fyrir sig. Eigi að síður felst ákveðin slysahætta í þessari tímapressu, gríðarlega mikil slysahætta. Það er algjör óþarfi að bjóða henni svona heim.

Við þurfum líka að hugsa um það starfsfólk sem hér vinnur. Það vinnur undir gríðarlegu álagi á þeim tímum sem loturnar ganga yfir. Síðan er hér hlé á milli mánuðum saman, eins og ég rakti áðan. Ég er ekki að segja að starfsfólk Alþingis sitji auðum höndum en það væri örugglega mun betra fyrir starfsemina hér ef þetta álag væri dreifðara.

Síðan er mjög mikilvægur sá punktur sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hinn ungi tveggja barna faðir, kom hér inn á. Ég tek innilega undir með honum. Þetta snýst líka um fjölskyldustefnu. Þetta snýst um það að þessi stofnun sé þannig úr gerði gerð að hingað sæki líka ungt fólk, konur líka, til þess að koma og starfa, fólk sem hefur fjölskylduábyrgð á sínum herðum.

Við vitum mjög vel að þessi vinnutími er, ég vil segja fjölskyldufjandsamlegur, það er svo einfalt mál, ekki síst fyrir þá sem búa úti á landi en líka fyrir okkur sem búum hér í höfuðborginni og þurfum þó ekki að fara um langan veg heim. Vinnutímanum hérna er háttað þannig að á þessum álagstímum vitum við mjög oft ekki, hvorki þingmenn né starfsfólk, hvenær vinnudeginum lýkur. Við þurfum að aðlaga okkur bara nánast frá klukkustund til klukkustundar. Auðvitað bitnar það á fjölskyldunni.

Ég bendi á það líka að breytingar hafa verið gerðar í nágrannaþingunum hvað þetta varðar, eins og hv. framsögumaður kom hérna reyndar inn á. Ég man a.m.k. eftir breytingum sem voru gerðar í sænska þinginu sem gengu allar út á það að unnt væri að dreifa álaginu og skipuleggja starfið betur. Auðvitað er mikilvægt fyrir fólk sem á fjölskyldu að það geti skipulagt tíma sinn, það viti fyrir fram nokkurn veginn hvenær vinnutíma lýkur þann daginn. Þar hafa t.d. ýmsar reglur verið settar í þessa veru, m.a. náttúrlega sem snúa að ræðutíma. Slíkar reglur hafa líka verið til umræðu hér, voru til umræðu á sínum tíma í nefndinni góðu sem Ólafur G. Einarsson setti á laggirnar, en líka reglur um að fólk þurfi að skipuleggja störf sín þannig að það þurfi að setja sig jafnvel á mælendaskrá daginn áður en umræða hefst. Þetta þykir okkur svolítið skrýtið að heyra á hinu háa Alþingi Íslendinga því að vitum yfirleitt ekki dagskrána fyrr en kannski kvöldið fyrir. Okkur væri nánast ómögulegt að setja okkur á mælendaskrá daginn áður og í raun og veru er það ekki einu sinni heimilt hér.

Ýmis svona atriði geta skipt máli. Það er hægt að skipuleggja starfið betur þegar við vitum nokkurn veginn hversu margir taka til máls í umræðu og fólk þarf þá bara að laga sig að slíkum vinnubrögðum. Auðvitað er mikilvægt jafnhliða svona vinnubrögðum að í þingsköpum séu úrræði sem gera það mögulegt að taka umræðu dagsins hverju sinni þannig að þingið verði ekki svipt öllum möguleikum til þess að taka upp pólitíska umræðu sem er mikilvæg þann og þann daginn.

Ég held að við getum litið til nágrannalandanna með þetta eins og svo fjölmargt annað. Við þurfum bara að drífa okkur í þessari vinnu og taka höndum saman um að breyta þessu. Annars þýðir lítið að vera að tala um það á tyllidögum að mikilvægt sé að fá fleiri konur og ungt fólk inn á Alþingi Íslendinga.