131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:30]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það sjálfsagða framfaramál sem hér hefur verið lagt fyrir af hv. þingmönnum Rannveigu Guðmundsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Bryndísi Hlöðversdóttur. Það segir sig sjálft að árið 2004 er fráleitt að þingstörfin, störfin á Alþingi Íslendinga, miðist enn við göngur og réttir. Það er einfaldlega löngu tímabært að þau séu færð inn í nútímann að því samfélagi sem við lifum og störfum í. Það hefur verið nefnt hér að þetta vinnufyrirkomulag sé óheppilegt, leiði til slæmra vinnubragða, sé ófjölskylduvænt og þar fram eftir götunum. Ég kannast auðvitað við það sjálfur frá minni fyrstu vertíð á síðasta þingi og sagði nú frá því við umræðu um þetta sama mál þá að mér gekk heldur illa að skýra vinnufyrirkomulagið á Alþingi út heima hjá mér. Þegar ég var farinn að hafa nokkurt samviskubit gagnvart eldri dóttur minni fyrir að hafa lítið getað verið með henni svona í aðdraganda jólanna, lok nóvember og byrjun desember, þá reyndi ég að útskýra það að ég mundi nú geta bætt henni það upp því það væri svo langt jólafríið hér, það væri alveg frá 13. desember og til 28. janúar. Það var ekki laust við að dóttir mín horfði á mig nokkrum öfundaraugum yfir þessu langa jólaleyfi og spurði: „Já, hvenær farið þið þá eiginlega í sumarfrí,“ því hún ætlaði að bera það saman við skólann hjá sér. Ég sagði: „12. maí.“ Þá sagði hún Hildur: „Já, já, pabbi. Þá er ég viss um að þið farið í páskafrí 29. janúar og eruð til 11. maí.“

Auðvitað er ekki nema von að illa gangi að útskýra svona vinnufyrirkomulag vegna þess að fyrir utan allt það sem hér hefur verið nefnt í ágætum ræðum manna í dag um það hversu lítið erindi það eigi í nútímasamfélagi og hversu mjög það er til baga við ýmis störf m.a. úti í kjördæmunum, við að vanda við lagavinnuna o.s.frv. þá snýst þetta mál líka um verkmenningu. Við höfum verið að nútímavæða ýmislegt í okkar samfélagi og höfum við kallað eftir breytingum á starfsemi stofnana og stétta ýmissa til þess að aðlaga þær nútímanum. Því verður þessi stofnun auðvitað líka að gera það.

Þeir verkhættir sem hér eru í hávegum hafðir eru gamla vertíðarhugsunin um að rumpa hlutunum af, taka þá með áhlaupi og annað þess háttar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísaði til þess að næst kæmist þetta í hans starfsreynslu því að vera til sjós. Ég sá nú aldrei til þess að óhætt væri að hafa mig til sjós. En sjálfum verður mér kannski hugsað til löndunar því þetta verklag hér minnir á akkorðsvinnu, kappið við að ljúka verkinu þannig að hægt sé að komast upp úr lestinni og á land. Það eru ekki verkhættir sem Alþingi Íslendinga á að temja sér og rækta.

Sú verkmenning sem við Íslendingar förum í ríkari mæli að temja okkur og höfum verið að temja okkur á undanförnum árum eru þeir þættir sem lúta að skipulagningu, að reglu, að samfellu og að eftirfylgni. Það er mikilvægt að þessir þættir séu grundvöllurinn í starfsemi Alþingis, löggjafarsamkomunnar, sem setur hér rammann.

Ég verð að segja að mér liggur við að kalla það verklag sem ég hef kynnst hér við fjárlagagerð flumbrugang því hér hefjast menn handa einhvern tímann í september við að vinna fjárlög sem á að afgreiða síðan í byrjun desember. Við byrjuðum á fundum kl. hálfníu í morgun og við verðum á fundum hér fram á kvöldið. Mér er, svo ég taki ekki dýpra í árinni, til efs að okkur í fjárlaganefndinni vinnist á þessum tíma tækifæri til að kynna okkur nægilega sæmilega þau verkefni, úrlausnarefni, erindi og óskir sem beint hefur verið til nefndarinnar eins og vert væri af hálfu löggjafarsamkomunnar.

Þetta er svona vertíð. Menn sitja í beit og taka inn hvert erindið á fætur öðru, fylla hjá sér möppurnar og keppast við að klára það á vertíðinni í stað þess að vinna í samfellu árið allt eftir einhverju skipulagi með einhverri reglu, með festu, samfellu og eftirfylgni að leiðarljósi.

Ég held að það hljóti að vera hagsmunamál allra þeirra sem starfa á þinginu og raunar landsmanna allra að horfast í augu við að þetta verklag þjónar engum, hvorki stjórnarmeirihlutanum né stjórnarminnihlutanum og að það sé löngu nauðsynlegt, eins og flutningsmenn hafa hér ágætlega bent á, að leggja til hliðar þennan hugsunarhátt gamla veiðimannasamfélagsins og reyna að tileinka sér vinnubrögð menntaðs nútímafólks. Ekki er síst mikilvægt að menn ákveði að hafa þessa stofnun hér fjölskylduvænni en hún hefur til þessa verið því ég held að mín kynslóð, ég trúi því að mín kynslóð hér á Alþingi geri kröfu til þess að hér sé vinnuskipulag slíkt að boðlegt sé fjölskyldufólki og að við munum, vonandi fyrr en síðar, sjá breytingar hér á.