131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er í sjálfu sér um ágætis frumvarp að ræða. Það er alveg rétt sem ræðumenn hér á undan hafa bent á að vinnutími alþingismanna er oft og tíðum óreglulegur. Þetta starf er ekki fjölskylduvænt. Það þarf nokkuð sterk bein til að vera þingmaður á hinu háa Alþingi ef menn ætla að sinna því eins og þeim ber að gera.

Ég sakna þess hins vegar, frú forseti, að sjá ekki fleiri landsbyggðarþingmenn taka þátt í þessum umræðum. Ég er einn af þessum landsbyggðarþingmönnum. Ég er þingmaður í Suðurkjördæmi sem er eitt víðfeðmasta kjördæmi landsins. Hin tvö landsbyggðarkjördæmin, þ.e. Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, eru einnig gríðarlega víðfeðm og stór og tekur langan tíma að ferðast um þessi kjördæmi.

Ég verð að segja að þó ég sé nýgræðingur á þingi og hafi aðeins lokið einni vertíð hér eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Hjörvar, þá er það reynsla mín að okkur landsbyggðarþingmönnum veitir ekkert af þeim tíma sem við höfum til umráða til að nota hann einmitt til að sinna okkar kjördæmum því þau eru svo stór og það fer það mikill tími í ferðalög. Flestir fara um kjördæmi sín akandi. Menn leggja að baki fleiri þúsund kílómetra þegar þeir leggjast út á annað borð. Það er alla vega mín reynsla úr mínu kjördæmi.

Hér hafa tekið til máls nánast eingöngu þingmenn úr Reykjavíkurkjördæmunum báðum eða úr kraganum svokallaða, þ.e. Suðvesturkjördæmi. Vel getur verið að þeim þyki hléin vera of löng hér á sumrin og líka eftir jólin þannig að þeim leiðist og langi til að láta til sín taka á Alþingi. Allt gott er um það að segja. Ég er alls ekkert að gera neitt lítið úr því.

Mér finnst það samt sem áður skína í gegn í umræðunni að þingmönnum þyki kannski eins og að lítið sé við að vera á þessum langa tíma. Ég er bara alls ekki sammála því. Reynsla mín er sú að ég hef haft nóg fyrir stafni. Maður hefur verið iðinn við að fylgjast með þjóðmálunum, tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni, skrifað blaðagreinar og þess háttar. Ég kíkti aðeins yfir það áðan og mér taldist til að í sumar meðan þing lá niðri hafi ég skrifað 14 blaðagreinar sem birtust hér og þar, um það bil eina grein á viku. Ég þvældist víða um. Það rennur upp fyrir mér núna að ég hefði kannski átt að fara í akstursdagbókina mína og leggja saman hvað ég ók marga kílómetra á sama tíma. Þeir skipta þúsundum.

Í raun er nóg að gera fyrir okkur landsbyggðarþingmenn. Ég ætla ekkert að rakka þetta frumvarp niður, alls ekki. Það á alveg rétt á sér sem hér kemur fram, að lengja þingtímann og það þarf að bæta skipulag þingsins. Það þarf að bæta málsmeðferð. Þetta er allt rétt. Stjórnarliðar þurfa sérstaklega að taka sér tak og þá sérstaklega ríkisstjórnin með sín stjórnarfrumvörp sem oft og tíðum koma hér inn á elleftu stundu, hlammast inn, þung og stór frumvörp sem síðan á að afgreiða með hraði kannski rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok á vorin. Þetta uppgötvaði ég í fyrra á minni fyrstu vertíð. Það kom mér mjög á óvart og ég gagnrýndi hástöfum þá þessi óvönduðu vinnubrögð. Það er verið að troða stjórnarfrumvörpunum í gegnum þingnefndir, þungum frumvörpum með offorsi, frumvörpum sem samin eru annaðhvort af ákveðnum pólitíkusum eða embættismönnum úti í bæ. Þingið er svo nánast eins og sjálfvirk afgreiðslustofnum sem bara stimplar og skrifar upp á. Síðan er þetta allt í einu orðið að lögum. Mörg dæmi voru um þetta í fyrra, t.d. umdeild frumvörp eins og eftirlaunafrumvarpið sem gerði allt vitlaust í þjóðfélaginu rétt fyrir jólin. Við munum öll eftir því. Fjölmiðlafrumvarpið kom fram þegar seint var liðið á vor og gerði allt vitlaust, setti allt hér á annan endann. Þetta eru náttúrlega alveg ólíðandi vinnubrögð. En þau kannski snerta ekki akkúrat efnisinnihald þessa frumvarps. (RG: Jú.)

Mig langaði bara til að gera eina tillögu og sem mér finnst sanngjörn tillaga en tæki þó tillit til okkar landsbyggðarþingmanna alla vega. Ef við förum að breyta þessu, þ.e. lengja starfstíma þingsins sem ég get í sjálfu sér alveg fallist á, þá vil ég gera þá kröfu á móti að okkur landsbyggðarþingmönnum verði þá heimilt að fara út af þingi á þingtíma, t.d. í tvær vikur og á fullum launum, til þess að nota þann tíma einmitt til að sinna okkar víðfeðmu kjördæmum og fá þá heimild til að kalla inn í staðinn varamann. Þetta fyndist mér vera eðlileg og sanngjörn krafa sem ég gæti vel fallist á og finnst í raun þörf á því til að mynda í mínu víðfeðma kjördæmi sakna ég þess að fá ekki fleiri tækifæri á meðan þing stendur yfir einmitt til að fara út í kjördæmið og hitta fólk — hvað á maður að segja — fylla á tankinn ef svo má segja, ná í skotfæri, fá innblástur, til að koma hingað aftur inn á þing til að vinna að málefnum kjördæmisins.

Þetta var svo sem allt og sumt sem ég vildi sagt hafa um þetta að öðru leyti ágætisfrumvarp, virðulegi forseti. Fróðlegt verður að sjá hvernig því reiðir af í meðförum þingsins og það verður gaman að sjá hvernig stjórnarliðar taka í þetta. En ég vona að einhverjir nefndarmenn — ég er ekki viss um hvert þetta frumvarp fer, sennilega fer það til allsherjarnefndar — að nefndarmenn ef þeir íhuga það að þetta verði að lögum taki þá tillit til þeirra hugmynda sem ég viðraði hér um kjör okkar landsbyggðarþingmanna. Okkur veitir ekki af tímanum til að ferðast um kjördæmin okkar.