131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

268. mál
[17:04]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir að flytja þetta athyglisverða og góða þingmál sem einhvern veginn hefur ekki farið hátt í umræðunni, a.m.k. ekki á síðustu missirum. Hún rekur mjög vel um hve stóran hóp er að ræða og athyglisverð tafla, sem byggð er á nemendaskrá Hagstofu Íslands eftir skólastigi, kyni og aldri fylgir greinargerðinni.

Þetta beinir sjónum okkar að því hversu mikilvægt er að jafna aðstöðu þessa þjóðfélagshóps til að stunda nám, um það þarf ekki að fara mörgum orðum, en má benda á að slíkt er einnig samfélagslegur ávinningur.

Hér sker sérstaklega í augu hve fáir einstæðir foreldrar, reyndar allt einstæðar mæður, 19 ára og yngri, stunda nám á framhaldsskólaaldri eða einungis 32%. Það segir okkur að brottfall þeirra sem eignast börn á framhaldsskólaaldri er mjög hátt. Þessi hópur sér sér illa kleift að stunda nám eftir að hafa eignast barn og það er augljóst að leiðin aftur inn í skólana er oft erfið vegna þess að námið er ekki lánshæft og því erfitt að framfleyta fjölskyldu jafnhliða því að stunda nám.

Ég hygg að það sé einkum þrennt sem þurfi að koma til til að jafna aðstöðu einstæðra foreldra til að stunda nám. Í fyrsta lagi snýr það að leikskóla- og dagvistunarmálum. Bæði Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin hafa barist fyrir því að leikskólinn verði gerður gjaldfrjáls og undir það tek ég heils hugar. Reykjavíkurlistinn er að stíga skref í þá átt að svo verði hér í borg og verður fróðlegt að fylgjast með framgangi málsins á næstu missirum enda um mjög brýnt mál að ræða. Það er fyrsta málið sem lýtur að því að bæta aðstöðu þessa hóps þannig að einstæðir foreldrar geti stundað nám.

Í öðru lagi lýtur þetta að húsnæðismálum eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir rakti hérna áðan um ásættanlegt leiguhúsnæði.

Í þriðja lagi, og það held ég að sé stóra málið, er lánshæfi til framhaldsskólanáms. Þar er átt við möguleika framhaldsskólanema á ákveðnum aldri og við ákveðnar aðstæður til að taka framfærslulán. Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna leggjum við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar til að hluti eða þriðjungur af lánum breytist í styrk ljúki námsmenn á háskólastigi námi sínu á tilteknum tíma. Slíkar útfærslur mætti mjög vel hugsa sér þannig að framhaldsskólanám verði lánshæft, t.d. við ákveðinn aldur og við ákveðnar félagslegar aðstæður. Til dæmis þegar fólk hefur náð 18 ára aldri, sjálfræðisaldri, þá verði framhaldsskólanám lánshæft. Og sé námi lokið á tilskildum tíma breytist hluti lánsins í styrk. Það ýtir undir að nemendur ljúki námi á svokölluðum réttum tíma en við það sparast mikið fé í skólakerfinu. Það yrði mikill hvati til að ljúka námi eins fljótt og kostur er að þriðjungur eða helmingur af teknu framfærsluláni breyttist í styrk þegar námslok hafa náðst á eðlilegum og tilskildum tíma.

Ég held að þetta sé stærsta málið í því að jafna aðstöðu einstæðra foreldra og gera þeim kleift að stunda nám án þess að fátækt eða efnalegir erfiðleikar bókstaflega haldi þeim frá námi eins og staðan er klárlega núna. Skólasókn þessa hóps, eins og rakið er hér, bæði á framhaldsskólastigi, sérskóla- og háskólastigi, gefur greinilega til kynna að einstæðir foreldrar eigi mjög erfitt með að stunda nám og sérstaklega að hefja nám aftur hafi námi í framhaldsskóla verið hætt áður en námslok náðust, leiðin aftur inn í skóla virðist vera mjög torveld. Þar held ég að sé brýnast að koma að málum og þess vegna tel ég að við eigum að taka það inn í endurskoðun á hlutverki og umfangi Lánasjóðs íslenskra námsmanna, þ.e. að hluti af framhaldsskólanámi verði lánshæfur við ákveðnar aðstæður, við ákveðinn aldur, t.d. 18 ára, og við ákveðnar félagslegar aðstæður. Þetta nær einnig til þeirra sem eru við nám í framhaldsskólum og gerir þeim kleift að ljúka námi á réttum tíma.

Eins og kemur fram í þessari góðu tillögu er stuðningur nú við einstæða foreldra til að stunda nám lítill sem enginn. Lítið sem ekkert er gert til að fá þennan hóp aftur inn í skólana eða gera þeim kleift að stunda og ljúka námi. Hér er um að ræða tæplega 12 þúsund manns, gríðarlega stóran þjóðfélagshóp, og sjálfsagt eru mjög margir innan hans sem annaðhvort vildu stunda nám eða eiga eftir að ljúka námi. Þetta er því mjög gott og brýnt þingmál og ég vona að í framhaldi af því vakni umræður um hve mikilvægt er að styðja við bakið á einstæðum foreldrum í námi. Vonandi fer ekki fyrir þessu máli eins og svo mörgum öðrum þingmannamálum hér í þinginu að það komi aldrei úr nefnd aftur, heldur verði því fylgt eftir með einhverjum hætti og menntamálaráðherra krafinn um viðhorf til þess en hæstv. ráðherra getur greinilega ekki verið við umræðurnar hér í dag.