131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:23]

Hilmar Gunnlaugsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 2. þm. Norðaust., Sigríði Ingvarsdóttur, fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu þar sem hún kynnti þá þingsályktunartillögu sem við stöndum saman að. Hún hefur í raun farið yfir öll helstu atriði er að málinu koma og gert það einkar vel. Það eru þó nokkur atriði sem ég vil aðeins hnykkja á.

Það er kannski hollt að halda því til haga að sá þjóðsöngur sem við höfum í dag, lofsöngur, eða Ó, Guð vors lands, varð ekki þjóðsöngur að lögum fyrr en 1983. Hann hafði þá unnið sér nokkuð traustan sess í hugum þjóðarinnar og það er ekki verið að gera lítið úr því, þvert á móti, en það voru ekki sett sérstök lög um þjóðsöng í tengslum við lýðveldisstofnunina eins og var gert t.d. um þjóðfánann.

Það er athyglisvert að líta til þess að þegar frumvarp til laga um þjóðsöng var lagt fram á þingi 1983 var þetta einmitt atriði sem flestir þingmenn gerðu athugasemdir við, þ.e. að engin sérstök þörf væri á lögum um þjóðsöng. Þegar á þeim tíma, hæstv. forseti, komu einnig fram efasemdir eða ábendingar um að þetta upphafna og fallega kvæði væri of trúarlegt miðað við tíðarandann árið 1983. Ég leyfi mér að fullyrða að síðan hafi tíðarandinn kannski frekar leitt til þess að óheppilegt sé að textinn við þjóðsönginn sé jafntrúarlegur og raun ber vitni. Þó að hann sé afar fallegur og eigi vel við þorra þjóðarinnar kann það að vera óheppilegt, og ég leyfi mér að minna á að fyrr í dag var einmitt umræða um viðhorf Íslendinga til útlendinga. Þetta er hluti af því, þ. e. það kann að vera að það sé erfiðara fyrir útlendinga sem hingað koma og verða síðan jafnvel á endanum íslenskir ríkisborgarar að samsama sig slíkum þjóðsöng.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingvarsdóttur komu fram hugmyndir hér árið 1996 um ákveðnar breytingar, þ.e. að kannað yrði hvort taka ætti upp annan þjóðsöng við hlið núverandi þjóðsöngs en þær náðu ekki fram að ganga. En þá þegar var einnig ljóst að þjóðsöngurinn okkar, þessi sameign okkar var ekki nýtt sem skyldi og það er kannski stærsta ástæðan fyrir því, svo að ég tali fyrir mitt leyti og sem meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu, að mér finnst í raun synd að við skulum ekki nýta þjóðsönginn okkar meira en við gerum.

Mér finnst nefnilega að þetta mál, að við tökum lögin um þjóðsönginn til endurskoðunar fyrst og síðast snúa að sjálfsmynd okkar. Því má halda fram að þjóðfáninn sé í raun frekar tákn sem við notum út á við en þjóðsöngurinn sé atriði sem snúi fyrst og fremst inn á við, þ.e. að okkur sem Íslendingum og að Íslendingum sem þjóð. Og það er einmitt þar sem reynslan hefur sýnt að það vantar upp á að þjóðsöngurinn sé nýttur af þjóðinni sem vera skyldi. Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því að hann sé ekki sameiningartákn eða að þjóðin kunni ekki vel að meta hann. En það er alveg ljóst að það vantar upp á að Íslendingar geti notað hann meira og því tek ég undir það sem kom fram hjá hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur að það hefur í raun komið á óvart hversu mikil umræða hefur orðið um þetta þingmál í samfélaginu.

Ég vissi áður en málið var lagt fram að það mundi vekja upp mikil viðbrögð og gerði mér alveg grein fyrir því, sérstaklega átti ég von á að þetta yrði fólki viðkvæmt mál, en ég átti alls ekki von á að tekið yrði eins vel og jákvætt í málið og raun ber vitni. Því tel ég að þingmenn ættu ekki að skorast undan að taka málið til alvarlegrar skoðunar vegna þess að það snýst um svo miklu meira en bara nýjan þjóðsöng og hvort hver og einn geti sungið hann, heldur um sjálfsmynd Íslendinga og að þjappa mönnum saman þegar það á við án þess að menn gangi nokkuð of langt í þeim efnum, að þjóðsöngurinn sé sameiningartákn sem sé því sem næst á allra færi sem á annað borð geta leyft sér þann munað að syngja skammlaust.