131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:28]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hér til að lýsa svona almennum stuðningi við málið og þakka flutningsmönnunum, hv. þingmönnum Sigríði Ingvarsdóttur og Hilmari Gunnlaugssyni, fyrir að hreyfa því. Ég hygg að málinu hafi fyrst verið hreyft af Arnþrúði Karlsdóttur varaþingmanni sem þá sat á þingi, ég held að það hafi verið fyrir u.þ.b. áratug og vakti töluverða athygli en það var ekki gert meira í því að sinni.

Ég hygg að hv. þm. Hilmar Gunnlaugsson sé með þjóðsönginn hjá sér. Ég ætla að biðja hann að koma hér og fá hann lánaðan hjá honum, þ.e. textann að sjálfsögðu.

Matthías Jochumsson var mikið skáld og merkilegt og gott er til þess að vita að nú er einmitt verið að skrifa ævisögu Matthíasar. Ég hygg að hann hafi verið sannur nítjándu aldar maður á Íslandi. Við eigum að gera minningu hans verðug skil. Hann var merkilegur karl á margan hátt og gott skáld en að vísu afar misjafnt. Hann var eitt þeirra skálda á Íslandi sem voru hraðkvæð og ortu um — þið fyrirgefið — allan skrattann, bæði sálma og tækifærisljóð af ýmsu tagi og mörg ættjarðarljóð, bæði um Eyjafjörð og Skagafjörð og Reykjavík og hvað sem í boði var eiginlega til að yrkja um. En eins og gerist um slíka menn þá var það ekki allt alveg jafngott. Fyrsta erindið í þjóðsöng okkar er t.d. fallega ort, eins og hv. flutningsmaður hinn fyrri hér í ræðustól rakti út frá hinum þúsund árum sem er líkt við eitt eilífðar smáblóm vegna þess að þannig er það í Davíðssálminum og passar auðvitað við flutninginn á sínum tíma, 1874 í Dómkirkjunni. Við þekkjum þetta. Annað erindið í þjóðsöngnum fer hins vegar ekki alveg jafnfagurlega eða fallega í munni. Ég vitna, með leyfi forseta, í það:

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram

og fórnum þér brennandi, brennandi sál,

guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,

og vér kvökum vort helgasta mál.

Þarna hefur skáldið lent í nokkrum erfiðleikum.

Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,

því þú ert vort einasta skjól.

Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,

því þú tilbjóst vort forlagahjól.

Þarna sjá menn að skáldinu voru mislagðar hendur þegar rann á hann þetta mikla ljóðæði. Ég tek fram að þetta segi ég af miklum hlýleik og aðdáun á Matthíasi Jochumssyni.

Ég held að það sé rétt að þessu ljóði og ekki síður lagi Sveinbjörns var ekki ætlað að vera þjóðsöngur af því tagi sem menn þekktu þá og þaðan af síður af því tagi sem menn þekkja nú. Ætli þjóðsöngurinn hafi ekki einkum þrenns konar hlutverk, í fyrsta lagi að vera fluttur á hátíðarstundum þegar minningarhátíðir lands standa yfir eða verið er að taka á móti höfðingjum og táknsmönnum landsins á erlendum vettvangi eða hér heima.

Í öðru lagi við íþróttaviðburði á landsleikjum og þannig þekkjum hann kannski best og syngjum hann oftast. Ég verð að segja fyrir mig að ég hef staðið í stúkunni í Laugardal á Laugardalsvelli og sungið þjóðsönginn. Ég þarf svolítið að herða mig og vera vakandi við það að flytja þennan sálm yfir knattspyrnumönnum sem standa teinréttir í röð og syngja þar um eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður guð sinn og deyr því það stóð alls ekki til í þessum knattspyrnuleik heldur kannski þvert á móti að minning Íslands lifði og guð heiðraði land og þjóð með sigri í leiknum. Hann hentar því ekki vel við það tækifæri.

Síðan er það þriðja. Það er svona samsöngur manna innan lands. Þar er hann lítt sunginn. Síðan hefur auðvitað komið fyrir að menn þurfa að syngja söng sinn á samkomum erlendis. Ég veit til þess að þegar menn hafa verið að syngja þjóðsöngva sína, Ja, vi elsker og God Save the Queen og þessa fínu söngva og syngjanlegu, hafa þeir lent í því að kunna ekki þjóðsönginn eða vilja ekki syngja hann. Eitt sinn var maður í vandræðum sem brást við með þessum hætti hér, með leyfi forseta:

Hani, krummi, hundur, svín,

hestur, mús, tittlingur,

galar, krunkar, geltir, hrín

gneggjar, tístir, syngur.

Að vísu var gerður góður rómur að, en þetta var nú samt ekki þjóðsöngur Íslendinga þó ljóðið sé gott og vissulega ort úr þjóðarsálinni og ekki síður lagið sem enginn höfundur er að nema íslenska þjóðin sjálf.

Ég tel, að öllu gamni slepptu og í fullri alvöru, að við ættum að íhuga þá tillögu sem ekki er í þessu þingmáli en hefur komið fram áður, þ.e. að hafa tvo söngva, virða það þannig við Matthías, Sveinbjörn og þá þjóð sem tók upp þann söng að við höldum hinum ágæta þjóðsöng okkar við hin hátíðlegri tækifæri en tökum upp annan söng til þess að hafa við hin óformlegri tækifæri sem ég nefndi áðan, þar á meðal á íþróttavöllum, a.m.k. í staðinn fyrir að taka 75 sekúndur af Matthíasi og Sveinbirni eins og hv. flutningsmaður minntist á áðan.

Ég held að þó sé sá tæknigalli á þessari tillögu til þingsályktunar sem ég mæli með að nefnd lagi í meðförum sínum að ég tel alveg fráleitt að fela ríkisstjórninni að endurskoða þessi lög og velja þennan söng eða gera tillögu um annaðhvort nýjan þjóðsöng eða annan söng til hliðar við þjóðsöng okkar. Ég verð að segja það þegar ég lít yfir þessa bekki og ímynda mér þá menn sem þar sitja að ég mundi einhvern veginn ekki treysta t.d. landbúnaðarráðherranum til að velja fyrir mig sönginn, hvað þá dómsmálaráðherranum. Ég held að þess vegna verði að fara, eins og stendur í gömlum bókum, að bestu manna yfirsýn um þetta. En ég treysti þingnefndinni vel til þess að gera það um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál.