131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:43]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einmitt kominn hingað til að gera það sem hv. þingmaður sagði að sér lægi í léttu rúmi þó að menn gerðu. Ég ætla að segja að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er trúr sínum uppruna. Hann er íhaldssamari en gengur og gerist um svona unga þingmenn. Ég tel að þau rök sem hann flutti séu ekki góð. Oft hef ég heyrt hann rökfimari en í þessari umræðu.

Ég vil nota tækifærið, frú forseti, til að segja að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að skipta um þjóðsöng. Ég tel að þessi þjóðsöngur dugi ekki af þeirri ástæðu að börn og unglingar geta ekki sungið hann og menn þurfa að vera alveg einstaklega vel af guði gerðir hvað sönggáfu áhrærir til þess að geta sungið hann. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vera auðvelt að syngja þjóðsöng, það þurfi að vera auðvelt að kenna hann börnum og unglingum og hann þurfi að hafa augljósa merkingu sem vísar til einhvers í okkar fortíð eða náttúru annars en bara trúar á guð almáttugan Þess vegna finnst mér að það eigi að skoða þetta í fullri alvöru. Ég veit að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fyrirgefur mér að ég kem hingað til að lýsa þeirri skoðun um leið og ég bið hann að gæta hófs hvað íhaldssemina varðar. Að vísu var dálítið gaman að sjá þá fallast í faðma hann og hv. þm. Mörð Árnason yfir því hvað Mörður er góður söngmaður. Ég get þess hins vegar að ég heyrði hv. þm. Mörð Árnason syngja einsöng í Dómkirkjunni þegar við vorum 16 vetra. Það gerði hann yfir gervöllum Menntaskólanum í Reykjavík og satt að segja hefur hv. þm. Merði Árnasyni farið fram.