131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Lágmarkslaun.

306. mál
[18:02]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að flytja þetta mál á þeim fáu dögum sem ég sit nú á þingi. Þetta mál sem ég ætla að gera grein fyrir er frumvarp til laga á þskj. 334, mál nr. 306, og þetta er eitt af þeim málum sem menn tala kannski um sem gamlan kunningja. Það má rétt vera því það er nú flutt í sjöunda skipti. Það má vel vera að það sé réttnefni, að þetta sé gamall kunningi, en það mætti líka kenna málin sem eru af þessu tagi við þrjósku þeirra sem í hlut eiga því að þetta og önnur margendurflutt mál eru það vegna þess að menn sem að þeim standa eru sannfærðir um réttmæti flutnings þeirra, þörfina fyrir umræðu og endurskoðun málefnis.

Frumvarpið er raunverulega tvær greinar. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Heildarlaun á mánuði fyrir 18 ára og eldri skulu ekki vera undir 138.500 kr. fyrir fulla dagvinnu.“

2. gr. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2005.“

Svo er, frú forseti, um þetta mál að það hefur litlum breytingum tekið í gegnum árin nema öll þau fylgiskjöl sem með voru í upphafi eru ekki með núna en eru til sem heimildir í skjaladeild. Þetta mál byggist á skrifum tveggja þekktra hagfræðinga sem halda því fram með rökum að lögbinding lágmarkslauna leiði fremur til velferðar en verðbólgu sem er þvert gegn rökfræði þeirra hagfræðinga aðila vinnumarkaðarins á Íslandi sem hafa sent frá sér álit um lögbindingu lágmarkslauna.

Ég hef velt fyrir mér hvers vegna aðilar vinnumarkaðarins fáist ekki til að huga að rökfræðinni á bak við lögbindingu lágmarkslauna. Ég er sífellt að nálgast þá skoðun að umræddir aðilar telji að eitthvað sé frá þeim tekið, að þeir telji það sína vinnu að semja og því vilji þeir ekki setja eins konar gólf þar sem lægstu laun eru ákveðin. Frú forseti. Ég tel að þó að þessum aðilum væri rétt upp í hendurnar svona viðmið hefðu þeir úr nógu að moða við að byggja upp launaþrepin frá þessum grunni.

Það má einnig segja: Hver getur ákveðið að þessi upphæð, kr. 138.500, sé rétt tala til viðmiðunar? Þessi tala framreiknuð byggist á því sem gefið var upp fyrir sjö árum að væru framfærslugreiðslur Reykjavíkurborgar og upplýsingum frá Hagstofu ásamt og með viðræðum við ýmsa félagsmálastjóra og nokkra formenn verkalýðsfélaga á þeim tíma sem frumvarpið var samið. Á þeim tíma sem þetta var gert kannaði ég hvað kostaði að leigja tveggja herbergja íbúð, bæði hjá Reykjavíkurborg og á almennum markaði á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég kannaði hvað fastagjald væri af síma og sjónvarpi, hversu mikill kostnaður væri af því að eiga og reka smábíl, kaupa eitt dagblað í áskrift auk nokkurra liða sem lúta að frítíma en þar er margt sem er umdeilanlegt og því tek ég þar mjög lága upphæð mánaðarlega sem viðmið. Ég tel í raun að í dæminu séu algjör bónusviðmið og því til skammar fyrir alla þá sem véla um laun og kjör fólks að nota lægri tölu en hér er gert.

Eflaust telja margir að sú upphæð sem hér er nefnd sé skammarlega lág. Það má rétt vera en hún er þó meira en 30% hærri en lægstu laun, og enn meiri munur er ef miðað er við atvinnuleysisbætur.

Frú forseti. Ég tel að ástandið á atvinnumarkaði sé orðið ískyggilegt á Íslandi, ekki síst í Reykjavík þar sem margir telja að hópar fólks séu í svartri vinnu fyrir 400–600 kr. á tímann og fái að auki fullar atvinnuleysisbætur. Ef þetta er rétt sem rætt er meðal fólks sýnir það og undirstrikar að launakerfi okkar er meingallað. Einnig er mikill misbrestur í siðferði ef rétt er og enn fremur er fólk þá að víkja sér undan samfélagsábyrgðinni, bæði vinnuveitendur og starfsmenn.

Ég tel, frú forseti, að nauðsyn sé að gefa upp á nýtt, taka upp raunhæf viðmið, meta launasamninga hins íslenska atvinnulífs að nýju, meta framfærslu einstaklings miðað við nútímaþjóðfélag og fara yfir bótakerfið með tilliti til heilbrigðis fólks. Í mörgum tilvikum er talið að þeir sem eru á atvinnuleysislaunum ættu að vera á almannatryggingalaunum.

Það má velta því fyrir sér hvernig það getur verið að mörg þúsund erlendra starfsmanna eru í atvinnu á Íslandi á sama tíma og atvinnulausir skipta þúsundum. Mitt svar við því er að launakerfið, atvinnuumhverfið og siðferðisvitundin séu með alvarlegum brotalömum.

Virðulegur forseti. Frumvarp þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið verður ekki farin og taxtalaun látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og ekki eiga sér viðreisnar von. Þannig mega málin ekki þróast.

Ég legg málið að lokum inn á hið háa Alþingi og óska eftir því að það fái afgreiðslu hv. félagsmálanefndar með þeim athugasemdum sem ég hef gert í ræðu minni um rökfræði og viðmið. Ég mælist, þótt óvenjulegt sé, einnig til þess að þær athugasemdir sem ég gerði í ræðu minni með þessu frumvarpi verði sendar til hæstv. félagsmálaráðherra þannig að athugasemdirnar sem eru reyndar mjög viðamiklar komist beint til hæstv. ráðherra.