131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:05]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Því er til að svara að forsætisráðherra fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra að annast framkvæmd þessarar þingsályktunar. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda fól síðan iðnaðar- og viðskiptaráðherra Byggðastofnun í nóvember 2003 að annast skipun umræddrar nefndar og hafa umsjón með störfum hennar.

Nefndin hefur lokið störfum og Byggðastofnun hefur alveg nýlega skilað iðnaðar- og viðskiptaráðherra tillögum sínum. Í greinargerð flutningsmanna með áðurnefndri þingsályktun er nefndinni gefin allítarleg leiðsögn, m.a. er ætlast til að nefndin móti tillögur sínar á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996 um framkvæmdaáætlun um verndun menningarumhverfis. Þess vegna verður að skoða niðurstöðu nefndarinnar í því ljósi.

Það má skipta tillögum nefndarinnar í þrjá flokka, í fyrsta lagi samfélagslegar aðgerðir. Þar má nefna tillögu um að hafnar verði strax búsetugreiðslur til íbúa í Árneshreppi sem eru þar með lögheimili og fasta búsetu. Skal greiðslan nema 60% af persónuafslætti og greiðast mánaðarlega til allra einstaklinga 16 ára og eldri. Einnig má nefna tillögu um að auka niðurgreiðslur á rafmagni sem einnig nái til eigenda sumarhúsa á svæðinu.

Í annan stað eru tillögur sem ætlaðar eru til að efla atvinnulíf í héraðinu, m.a. er lagt til að sjávarútvegsráðuneytið úthluti aflaheimildum í Árneshreppi til næstu fimm ára sem hreppsnefndin endurúthlutar síðan til útgerðaraðila í Árneshreppi. Enn fremur að unnið verði að sértækum markaðsaðgerðum með sauðfjárafurðir úr Árneshreppi og leitað að nýjum tækifærum í landbúnaði.

Loks eru tillögur um að efla menntun og menningu í héraðinu. Þar er m.a. lagt til að komið verði upp fullkominni aðstöðu til fjarnáms í Finnbogastaðaskóla með myndfundabúnaði og tengingu við FS háhraðanet framhaldsskólanna til kennslu við grunnskólann og til fræðslu og námskeiðahalds fyrir almenning. Sumar þessara tillagna eru þess eðlis að framkvæmd þeirra kallar á umdeildar ákvarðanir, á löggjöf, bæði á sviði skatta og sjávarútvegsmála, sem ekki hafa verið taldar heppilegar og framkvæmanlegar fyrir eitt einstakt byggðarlag. Þar hafa komið til önnur úrræði eins og greiðslur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og úthlutun aflaheimilda til afmarkaðra svæða víðs vegar á landinu. Aðrar tillögur eru mun auðveldari viðfangs. Þar má nefna betrumbætur á vegasambandi innan hreppsins, gerð úttektar á framboði á ferðaþjónustu í Árneshreppi og þörfum ferðamanna sem heimsækja Árneshrepp og að kanna leiðir til að efla menntun og menningu eins og áður hefur fram komið.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun vinna áfram að þessu máli, fara yfir framkomnar tillögur og leggja mat á hvernig stjórnvöld geti stuðlað að því að gera búsetu í Árneshreppi bæði auðveldari og eftirsóknarverðari en nú er.