131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:11]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að þessi mál eru tekin upp og við þeim hreyft. Erindi mitt er fyrst og fremst að hvetja til þess að hlutunum verði síðan fylgt eftir. Satt best að segja hefur farið talsvert mikill tími í þetta starf frá því að menn urðu blessunarlega mjög sammála og þverpólitísk samstaða varð um það á þingi að rík efni væru til að grípa til sérstakra ráðstafana til að styðja við bakið á byggðinni í Árneshreppi. Hún er á margan hátt einstakur útvörður og það eru full efni til þess að grípa þar til sértækra aðgerða. Ef það er ekki hægt vegna einhverra evrópskra reglusetninga eða af öðrum ástæðum að grípa til sértækra ráðstafana til að hlúa að búsetu og varðveita þá menningu sem með henni er geymd í Árneshreppi á Ströndum spyr ég: Hvar er einhvers staðar eitthvað hægt að gera?

Ég held að menn eigi að vinda sér í það að hrinda því í framkvæmd sem þarna er lagt til, a.m.k. því sem ekki er mjög umdeilt, og gera það fyrr en seinna.