131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:14]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þetta mál er ekkert að velkjast í kerfinu. Það er verið að vinna að því í fullri alvöru. Ég vil fyrir mitt leyti, miðað við þá þekkingu sem ég hef á aðstæðum í Árneshreppi, segja að ég tel uppbyggingu vegakerfisins mikilvægasta af öllu. Það er víða mjög slæmt. Ég veit ekki til þess að það hafi verið sérstakt forgangsverkefni í Norðvesturkjördæmi. Ég tel að þar þurfi að að verða breyting á. Ég hef farið þarna um nokkrum sinnum og tel að að hluta til séu vegarkaflar á þessu svæði með eindæmum, miðað við það sem annars staðar gerist á byggðu bóli. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt, ekki bara út af byggðinni heldur líka út af aðgangi ferðamanna að þessu svæði. Þetta svæði er ein af mestu náttúruperlum þessa lands og jafnframt tel ég að ýmislegt sem varðar menningu og menntun á svæðinu, eins og fjarnám og annað slíkt, eigi að hafa forgang.

Ég bendi á að tillögur sem varða grundvallarbreytingu á skattalögum að því er varðar búsetustyrki þurfa mun meiri umræðu og umhugsun. Ég dró það sérstaklega fram. Hið sama gildir um sérstaka úthlutun á fisveiðiheimildum til viðbótar við þær sérreglur sem við höfum sett um þau mál.

Ég benti á að ég teldi að þau umdeildu atriði ættu ekki að þurfa að tefja fyrir þessu máli að öðru leyti.