131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:19]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn háttvirts þingmanns er um mikilvægt mál sem snertir bæði hugsanlegar breytingar á löggjöf um hlutafélög og einnig jafnréttismál almennt, sem eru raunar á verkefnasviði hæstv. félagsmálaráðherra sem er ráðherra jafnréttismála.

Í viðskiptaráðuneytinu hefur málið nú þegar verið skoðað með opnum hug. Fyrr á árinu var tekið saman stutt yfirlit um stöðu mála annars staðar á Norðurlöndum með tilliti til hugsanlegra aðgerða svo sem ég vík nánar að síðar.

Þá hef ég þann 12. október síðastliðinn, sem lið í stefnumörkunarstarfi ráðuneytisins og í samræmi við þingsályktun um jafnréttismál til næstu fjögurra ára, skipað nefnd sem kanna mun hvort unnt sé að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja, m.a. með breytingu á löggjöf á sviði viðskiptaráðuneytisins. Hlutverk nefndarinnar, sem Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, er formaður fyrir og þar sem konur eru fjórar af sex nefndarmönnum, er að skoða hvernig auka megi tækifæri kvenna í forustu íslenskra fyrirtækja.

Nefndin skal m.a. kanna hvort önnur lönd hafi gripið til ráðstafana í þessu skyni og bera saman stöðu kvenna í atvinnulífinu hér á landi og í nágrannaríkjunum. Hlutverk nefndarinnar er mikilvægt. Í því sambandi má hafa í huga að meiri hluti nýrra háskólamenntaðra sérfræðinga eru konur og þær hasla sér völl í atvinnulífinu í síauknum mæli. Konur eru samt enn sem komið er afar fáséðar í yfirstjórn íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að margt bendi til að það muni breytast með aukinni þátttöku vel menntaðra kvenna í atvinnulífinu eru samt sem áður hindranir í vegi fyrir því að konur veljist til forustu í stórum fyrirtækjum. Í dag er t.d. engin kona forstjóri í um 40 skráðum fyrirtækjum í Kauphöll Íslands og mjög fáar konur stjórnarmenn.

Niðurstöður nefndarinnar og tillögur verða athugaðar gaumgæfilega með jákvæðu hugarfari þegar þær berast.

Til fróðleiks vil ég nefna til hvaða aðgerða hefur verið gripið annars staðar á Norðurlöndum til að fjölga konum í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum. Almennt má segja að Svíar og Norðmenn hafi gripið til lagasetningar. Í Danmörku og Finnlandi eru í gildi lög um kynjahlutföll í opinbera geiranum en í báðum löndum hafa verið valdar aðrar leiðir en lagasetning til að ná sama markmiði í einkageiranum.

Ég vil fjalla aðeins nánar um Noreg. Í desember 2003 voru samþykktar í Noregi lagabreytingar sem miða að því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja. Með lögunum voru gerðar breytingar á reglum félagaréttar um samsetningu stjórna í öllum opinberum fyrirtækjum. Gerðar eru kröfur um að kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækjanna sé í megindráttum þannig að að minnst 40% stjórnarmanna séu af hvoru kyni. Lögunum verður framfylgt á grundvelli almennra reglna um hlutafélög þannig að ef sú stjórn sem tilkynnt er til hlutafélagaskrár uppfyllir ekki lagaskilyrði um kynjahlutfall og félagið nýtir ekki rétt sinn til að leiðrétta það getur það leitt til þess að félagið verði leyst upp. Lögin tóku gildi 1. janúar 2004.

Lagðar voru til samsvarandi reglur fyrir stjórnir norskra hlutafélaga í einkaeigu en ákveðið að ekki yrðu gerðar breytingar á lögunum þar að lútandi nema að markmiðið um kynjahlutföll í stjórnum næðist ekki á árinu 2005 án lagasetningar. Er því gert ráð fyrir að mat á því hvort þörf sé á lagasetningu varðandi hlutafélög í einkaeigu fari fram miðað við stöðu mála 1. júlí 2005. En þá má ætla að flest hlutafélög hafi haldið aðalfundi og kosið í stjórnir. Ef lög um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga í einkaeigu verða sett er gert ráð fyrir tveggja ára aðlögunartíma fyrir félög sem þegar hafa verið skráð, þ.e. til ársins 2007.

Ekki er lagt til að í Noregi verði settar reglur um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga í einkaeigu. Þótti slík lagasetning óþörf þar eð flest einkahlutafélög eru fjölskyldufyrirtæki og eigendurnir sjálfir sitja í stjórnum félaganna.

Þar eð lögin hafa aðeins verið í gildi nokkra mánuði er enn ekki unnt að segja til um áhrif þeirra. Norska ríkisstjórnin hefur hins vegar unnið að jafnara kynjahlutfalli í stjórnum félaga síðan 2002 og hefur nú þegar náð markmiði sínu um 40% kynjahlutfall í stjórnum ríkisfyrirtækja. Þá hefur ríkisstjórnin boðið samtökum á sviði viðskipta- og atvinnulífs til samvinnuverkefnis með það að markmiði að fjölga konum í stjórnum hlutafélaga í einkaeigu.