131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:24]

Sigríður Ingvarsdóttir (S):

Herra forseti. Þegar horft er til stöðu kvenna á Íslandi í dag blasir við sorgleg staða. Hagstofan hefur gefið út ritið „Konur og karlar 2004“ en þar koma ýmsar athyglisverðar staðreyndir fram varðandi raunverulega stöðu kynjanna. Konur eru í minni hluta í áhrifastöðum næstum hvert sem litið er. Þær eru tæpur þriðjungur þingmanna og sveitarstjórnarmanna, fjórðungur ráðherra og tæplega fimmtungur framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Þá eru konur 29% þeirra sem sitja í opinberum nefndum og ráðum ríkisins og um fimmtungur forstöðumanna ríkisstofnana.

Konur koma lítt við sögu í stjórnum samtaka atvinnulífsins og helstu fyrirtækja á markaði og stjórnir launþegasamtaka endurspegla almennt ekki kynjaskiptingu á meðal félagsmanna. 79% forstöðumanna ríkisstofnana eru karlar. Í 300 stærstu fyrirtækjum landsins eru níu konur forstjórar en 291 karlmaður. Staðreyndirnar tala sínu máli, jafnréttið ríkið hér ekki í reynd.