131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:27]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir fyrirspurnina enda mikilvægt umfjöllunarefni á ferðinni. Það hlýtur að vera eitthvert brýnasta réttlætismál sem við tökumst á við í þessu samfélagi að vinna á launamun milli karla og kvenna. Við höfum því miður nýverið fengið sorglegar upplýsingar um stöðnun í þeirri baráttu á síðustu árum og of mikinn og óhóflegan launamun.

Þar hlýtur að ráða miklu um að bæði kynin koma ekki jafnt að yfirstjórn fyrirtækja og forstjórastöðum eins og hér hefur verið rakið. Hins vegar er alveg ljóst að hið opinbera þarf sjálft að taka sig á, eins og áður hefur komið fram, áður en það getur gert kröfur til Samtaka atvinnulífsins eða einkageirans.

En vegna orða hv. þm. Ástu Möller þá er það því miður ekki þannig að atvinnulífið hafi sjálft sett sér reglur (Forseti hringir.) og ég held þess vegna að til skoðunar hljóti að koma, eins og hæstv. ráðherra hefur bent á að hafi verið gert í Noregi, að gefa atvinnulífinu ákveðinn tíma til að taka upp sínar eigin reglur (Forseti hringir.) en grípa til aðgerða ella.