131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:30]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að koma fram með fyrirspurnina og sýna málinu áhuga á þann hátt.

Hvað varðar nefndina sem ég greindi frá er formaðurinn framkvæmdastjóri Verslunarráðsins. Fulltrúi ráðuneytisins og Samtaka atvinnulífsins er í nefndinni, fulltrúi Félags kvenna í atvinnurekstri og einnig hafa stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hvor sinn fulltrúa. Það er því ekki um, eins og hv. þm. heyrir, fulltrúa frá stjórnarandstöðunni að ræða. (JóhS: Hvers vegna ekki?) Það er ákvörðun sem ég tók vegna þess að ég vildi ekki hafa nefndina of stóra og fannst aðalatriðið að þar ættu sæti fulltrúar frá þessum mikilvægu samtökum atvinnulífsins og ég vil leggja áherslu á að best er að fyrirtækin sjái sjálf að sér og fari út í breytingar hvað þetta varðar án þess að á þau verði sett lög. Hins vegar vofir það yfir að ef engin bót verður á hefur löggjafarsamkoman alltaf þann möguleika að setja lög til þess að bæta úr.

Ég vil einnig geta þess að Norðurlöndin hafa haft með sér samstarf á þessu sviði og Norðmenn verið þar í forustu. Eftir nokkra daga er mér boðið að sitja fund Norðurlandaþjóðanna þar sem fjallað verður sérstaklega um þetta málefni. Ég hef ákveðið að sækja þann fund vegna þess að mér sýnist að við getum lært ýmislegt af nágrönnum okkar á þessu sviði, eins og svo oft áður, og ekki síst Norðmönnum. Ég mun því geta sagt hv. þm. einhverjar fréttir af samstarfinu eftir nokkra daga.