131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[12:54]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þannig hagar til að í þessum fyrirspurnatíma er ég með fjórar fyrirspurnir um orkumál og satt best að segja, þó að maður vilji ekki alltaf fá allar fyrirspurnirnar í einu til umræðu, þá er það mjög áhugavert að þessi mál komi til umræðu nú í eins konar smærri virkjanaumræðu þar sem þetta eru svæði sem eru viðkvæm og hafa verið í umræðunni.

Fyrsta fyrirspurnin, sú sem ég mæli fyrir nú, er um háhitasvæðið við Torfajökul og hljóðar svo: Hafa orkufyrirtæki sýnt háhitasvæðinu við Torfajökul áhuga sem virkjunarkosti og, ef svo er, hvaða orkufyrirtæki eru það? Hver er afstaða ráðherra til rannsókna og virkjunar á þessum stað?

Þetta er auðvitað eitt verðmætasta svæðið samkvæmt rammaáætlun en í ársbyrjun 2003 sendi Landsvirkjun frá sér fréttatilkynningu í tilefni af því að umræða varð bæði í fjölmiðlum og á Alþingi um jarðhitarannsóknir á Torfajökulssvæðinu og þar kom fram að Landsvirkjun hefði sótt um rannsóknarleyfi í vesturhluta Torfajökulssvæðis vorið 2002 en einnig að annað orkufyrirtæki hefði sótt um, en báðum hefði verið synjað um rannsóknarleyfi.

Það kom fram að sveitarfélög á svæðinu hefðu áhuga á virkjunaráformum og hefðu í raun og veru tekið virkjunarhugmyndir upp við gerð aðalskipulags. Það vekur auðvitað sérstaka athygli af því að við höfum verið að ræða það að undanförnu með hvaða hætti virkjunaráform komi fyrir Alþingi ef það gerist að svæði eins og Torfajökulssvæðið, svo viðkvæmt og svo hátt uppi á hálendinu sem það er, lendir jafnvel inn í aðalskipulag sveitarfélags.

Það kom líka fram að Orkustofnun hefði gert mælingar á svæðinu fyrir Landsvirkjun og ef ég man rétt fengu fjölmiðlar veður af þessum heimildaráformum úr fundargerð sveitarfélagsins sem á í hlut, sem hlýtur þá að hafa verið Hella, meðan ég hélt og taldi nokkuð öruggt að þetta svæði væri þjóðlenda og spyr ég ráðherra um það.

Ljóst er að þessi mál koma ekki fyrir Alþingi samkvæmt núgildandi lögum og að heimilt verður að gera mat á umhverfisáhrifum í framtíðinni án þess að framkvæmdarleyfi liggi fyrir á svæðinu og vandinn er annars vegar, þegar það er gert, jarðrask, vegagerð og tækjaflutningur, og þegar orðinn er kostnaður vegna rannsókna eykur það mjög þrýsting á framkvæmdir. Ég lít nú til þess hvað hæstv. iðnaðarráðherra hefur að segja.