131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:10]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í september sl. óskaði Landsvirkjun eftir því með bréfi til iðnaðarráðuneytisins að fyrirtækið fengi rannsóknarleyfi til 15 ára á vatnasviðum austari og vestari Jökulsár í Skagafirði með fyrirheiti um forgang að nýtingu orkunnar. Þá hefur ráðuneytinu einnig borist sams konar erindi frá Héraðsvötnum ehf. sem er hlutafélag í eigu Rafmagnsveitna ríkisins og heimamanna í Skagafirði þar sem óskað er eftir rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun.

Erindum þessum hefur verið svarað á þann veg að lagalega sé óhjákvæmilegt annað en að hafna þeim. Í erindum þessum er óskað eftir því að veitt verði rannsóknarleyfi með fyrirheiti um forgang að nýtingu orkunnar ef hún reynist hagkvæm. Í 40. gr. raforkulaga er kveðið á um að lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gildi um leyfi til þess að rannsaka orkulindir til undirbúnings raforkuvinnslu. Leyfi til nýtingar orkunnar til raforkuframleiðslu er hins vegar veitt með virkjanaleyfi samkvæmt ákvæðum raforkulaga en ekki samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og því er ekki unnt að veita rannsóknaraðila forgang að virkjanaleyfi á grundvelli þeirra laga. Að auki ná auðlindalögin óbreytt ekki til vatnsorku en á næstu dögum verður lagt fram nýtt lagafrumvarp sem tekur til rannsókna og nýtingar á öllum auðlindum á og í jörðu. Verði það að lögum er tryggt að rannsóknir og virkjanaundirbúningur getur farið fram með eðlilegum hætti á næstu árum.

Með breytingum á lögum um raforkuver frá 1981 var Rafmagnsveitum ríkisins í samstarfi við aðila í Skagafirði veitt á árinu 1999 heimild til að virkja Héraðsvötn í Skagafirði við Villinganes, Villinganesvirkjun, með allt að 40 megavatta afli. Á árinu 2000 hófu þessir aðilar undirbúning að mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og nauðsynlegar virkjunarrannsóknir. Á árinu 2002 féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina og umhverfisráðuneytið staðfesti þann úrskurð stuttu síðar. Þá var á árinu 2003 unnið að sérstöku deiliskipulagi fyrir virkjunarsvæðið eins og lög gera ráð fyrir og var það kynnt í Héraði.

Eins og kunnugt er þarf virkjunin að vera reist í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og hefur verið ágreiningur um það meðal heimamanna hvort fella skuli deiliskipulag virkjunarinnar að aðalskipulagi sveitarfélagsins sem unnið hefur verið að á sl. árum. Enn sem komið er hefur sveitarfélagið ekki fallist á að gera það og hefur því ekki verið unnið að frekari undirbúningi þessarar virkjunar.

Skatastaðavirkjun er virkjun í austari Jökulsá með veitum að Nýjabæjarfjalli og efstu drögum Hofsár og hluta af jökulkvíslum vestari Jökulsár. Í forathugun virkjunarinnar sem gerð var árið 1999 voru kannaðir ýmsir virkjunarkostir með mismunandi veitum frá vestari Jökulsá og jafnframt meira falli virkjunar en áður hafði verið fyrirhugað. Þar var einn kostur sá að frárennslisgöng Skatastaðavirkjunar mundi enda neðan núverandi stíflusvæðis Villinganesvirkjunar og nýta þannig fallorku fyrirhugaðrar Villinganesvirkjunar. Í þeim virkjunarkostum sem hafa verið til athugunar hefur verið miðað við að helstu vatnsvegir frá miðlunarlóni og stöðvarhúsi virkjunarinnar yrðu neðan jarðar.

Staða náttúrufarsrannsókna vegna Skatastaðavirkjunar er góð miðað við að enn er þessi virkjunarkostur á frumhönnunarstigi og ekki hefur verið tekin ákvörðun um endanlega útfærslu virkjunarinnar. Orkustofnun hefur lítið unnið við jarðfræði eða náttúrufarsrannsóknir á svæðinu undanfarin ár nema við rennslismælingar. Fyrir hendi eru nú þegar góðar langtímamælingar á rennsli þeirra vatnsfalla er kunna að verða nýtt til virkjunarinnar en aðeins lítill hluti þeirra mun þó skerðast miðað við núverandi rennsli í byggð. Meginumhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu af völdum miðlunarlóns hennar, svokallaðs Bugslóns sem yrði um 28 ferkílómetrar að flatarmáli með um 400 gígalítra miðlunargetu. Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og margar aðrar stofnanir hafa unnið að rannsóknum á þessu svæði á undanförnum 15 árum þannig að umhverfisáhrif lónsins eru allvel þekkt.