131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að allt mæli með þessum virkjunum í Skagafirði. Það er líka mjög margt sem mælir í móti þeim, alveg sérstaklega Villinganesvirkjun sem er að mínu mati þegar grannt er skoðað kannski eitthvert sorglegasta dæmið um skammsýni í þessum efnum og dæmi um hversu órafjarri því menn eru að horfa til einhverrar sjálfbærrar orkustefnu og orkunýtingar hér í landinu. Þessi tiltölulega litla virkjun, með aðeins 40 megavatta afli, verður ónýt á 40–60 árum af því að uppistöðulónið fyllist en sökkvir í leiðinni einhverjum fallegustu gljúfrum í landinu og eyðileggur þá uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu sem þar hefur verið unnið að undanfarin ár.

Það er sömuleiðis aldeilis ekki í hendi að þó að ráðist yrði í þessar virkjanir yrði orkan nýtt í Skagafirði. Þvert á móti eru menn einmitt að bera mjög víurnar í þessa orku (Forseti hringir.) í öðrum byggðarlögum og hæstv. ráðherra reyndar etur þeim saman (Forseti hringir.) og hefur stofnað til illdeilna milli byggðarlaga á Norðurlandi um það (Forseti hringir.) hvert þeirra eigi að hreppa hnossið, næsta álver.