131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:20]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Að gefnu tilefni vil ég lýsa því yfir að ég er þessu algjörlega mótfallinn og mér finnast fáránlegar þær hugmyndir sem menn setja hér fram um að einhverjir heimamenn eigi orku sem þurfi að nýta til vinnslu í héraði. Það er ekki um það að ræða, við Íslendingar eigum allir okkar land og þegar virkjað er á einum stað þarf að líta á það ósköp einfaldlega hvar hagfelldast er að nýta þá orku.

Hins vegar má svo sem segja að hjá mönnum sem búa við það að fleygt er saman tveimur fljótum og annað þeirra látið renna gruggugt og allt öðruvísi en áður var hafi orðið slíkur skaði á landsgæðum í því héraði að það sé gustuk að verksmiðjan sé sett þar niður, svona eins og til einhverra endurbóta.

Í tilefni af því að Friðrik Sophusson sagði svo gáfulega á sínum tíma að það væri þó kostur við Kárahnjúkavirkjun, þrátt fyrir alla eyðilegginguna, að þar væri komin saman ein stór virkjun í staðinn fyrir mjög margar smáar með eyðileggingarkraft sinn úti um allt land vil ég spyrja hvort iðnaðarráðherra geti tekið undir þessi orð eða hvort hún ætli að virkja hverja einustu á á landinu. (Forseti hringir.) Er einhver staður og einhver á sem ekki er hægt að virkja, og er eitthvað sem iðnaðarráðherra getur nefnt núna (Forseti hringir.) sem hún vill ekki virkja, eitthvað sem á að fá að vera í friði, eitthvað sem er friðheilagt í náttúru Íslands?