131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:21]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á því að vita sem mest um þessar virkjanir tvær sem verið er að velta fyrir sér, án þess að ég sé á þessu augnabliki búin að taka neina afstöðu til þeirra. Þessi orðaskipti hér segja okkur hversu mikilvægt það er að ræða þessi mál á Alþingi og þess vegna finnst mér mjög slæmt að Alþingi sé með lögum búið að gefa frá sér að ákvarðanir, hversu stórar sem þær eru, í virkjunarmálum komi hingað inn á þing.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að synjun hefði m.a. byggst á því að ekki væri hægt samkvæmt auðlindalögum að gefa rannsóknarleyfi og virkjunarleyfi, að það færi ekki saman. Þess vegna spyr ég, varðandi þá breytingu sem hún kynnti á lögunum, hvort eftir það verði hægt að heimila einhverjum aðila að fara í rannsóknir á einhverju svæði með því fororði að ef hann verði sáttur við niðurstöðu rannsóknanna fari hann í virkjanir. Verður þetta breytingin með lögunum, skildi ég það rétt?

Svo varðandi Villinganesvirkjun. Þetta er nú eitt af því sem á að vera okkur alþingismönnum til eilífðarumhugsunar, þetta var eitt af þeim frumvörpum sem kom inn seint um vor, skaust inn í iðnaðarnefnd, fékk ekki mikla umfjöllun og allt í einu var bara búið að afgreiða það út, ekki bara að Alþingi heimilaði að fara í Villinganesvirkjun heldur hafði í nefndinni komið inn eitt lítið ákvæði í viðbót sem ekki hafði verið mælt fyrir hér við 1. umr., eins og áskapað er, um það að fara í Bjarnarflagið. Því var þó a.m.k. bjargað þannig að setja þá ákvörðun undir lögin um Laxá og Mývatn þannig að það varð viss vernd í því.

Svona hafa vinnubrögð Alþingis stundum verið. Þau hitta okkur fyrir á erfiðum tímum löngu seinna. Það ætti að vera okkur umhugsunarefni.