131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:32]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hinn mikli kostur við vindmyllur sem nýttar eru mjög, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, í nágrannalöndum okkar er auðvitað sá að það tjón sem þær kunna að valda á umhverfi og landsgæðum er auðvelt að bæta með því að taka vindmyllurnar niður og setja þær upp annars staðar eða leggja þær af.

Þegar hæstv. ráðherra svarar því til um vindmyllurnar að rafkostnaður frá þeim sé miklu meiri en frá öðrum stöðum kann það að vera rétt. Hún nefndi ekki tölur í því samhengi en þá er sá galli fyrir hendi að enn höfum við ekki fundið út aðferðir til að reikna út kostnaðinn við umhverfisskemmdir. Kostnaðurinn við mesta umhverfisslys í okkar heimshluta, Kárahnjúkavirkjun, hefur ekki verið reiknaður út. Það er það sem við þurfum að þróa á næstu árum og áratugum, líkan til ákvarðanatöku sem gerir ráð fyrir þessum kostnaði einnig og reiknar hann inn í rafmagnskostnaðinn þegar verið er að bera saman virkjunarkostnað.