131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:49]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt þegar við upplifum í fyrsta sinn mjög góðan hagvöxt og atvinnuleysi samtímis. Það hefur ekki gerst áður. Það er búist við að atvinnuleysi verði yfir 3% á þessu ári. Það er mikið fyrir Ísland, mjög mikið. Hagræðing í atvinnulífinu hefur verið nefnd sem ein ástæða fyrir því að þetta er að gerast og skýrist m.a. af sameiningum og yfirtökum fyrirtækja. Þetta veldur því að fyrirtæki halda að sér höndum um mannaráðningar, eru upptekin af framleiðniaukningu og að við sameininguna og breytingarnar sé hægt að halda mannahaldi í skefjum. Þetta er það sem hefur verið að gerast á liðnum árum hjá okkur. Það eru breytingar á vinnumarkaði og eðlisbreytingar starfa. Það er gífurlega mikilvægt að hvetja til að fólk lagi sig að breytingum, m.a. endurmennti sig til breyttra og nýrra starfa.

Ég velti því fyrir mér hvort verkalýðsfélögin fái nægilegan stuðning við aðskilið verkmenntanámskeið og endurmenntun. Það hefur verið haft að leiðarljósi, t.d. á Norðurlöndunum, að stuðningur til menntunar kemur strax inn eftir að atvinnuleysi verður viðvarandi.