131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:51]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Hér er hreyft afskaplega viðkvæmu og mikilvægu máli og rétt að taka undir ugg manna um það. Þrátt fyrir tölur um atvinnuleysi koma líka þau sjónarmið fram, m.a. frá ýmsum svæðisvinnumiðlunum og ýmsum atvinnurekendum, að á sumum svæðum gangi illa að fá fólk til starfa. Fleiri en eitt og fleiri en tvö fyrirtæki á sumum svæðum kvarta undan því þar sem atvinnuleysistölur eru tiltölulega háar.

Þarna er hlutur sem þarf að skoða mjög vandlega. Nú er ég ekki að ýja að því að þetta sé að einhverju leyti óeðlilegt. Eru þetta launin? Eru þetta tengsl launa og atvinnuleysisbóta? Er þetta e.t.v. nýtt viðhorf sem er að gera vart við sig meðal ungs fólks? Þetta eru þættir sem er afskaplega mikilvægt að fara vandlega í saumana á.

Ég tel rétt eins og hæstv. ráðherra að úrræði séu í rauninni til staðar hvað varðar starfsmenntun og tækifæri í fyrirtækjunum í samstarfi við Vinnumálastofnun en það eru þessi viðhorf sem þarf að skoða mjög vandlega áður en þetta vex okkur yfir höfuð.