131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins.

119. mál
[13:58]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þm. Marðar Árnasonar um lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins, sem á Ríkisútvarpið voru lagðar árið 1993, þá er það rétt sem fram hefur komið hjá háttvirtum þingmanni að Ríkisútvarpið hefur verið rekið með halla á undanförnum árum, ekki síst vegna þessara skuldbindinga sem Ríkisútvarpið hefur verið látið axla, m.a. lífeyrisskuldbindinga og skuldbindinga sem tengjast Sinfóníuhljómsveitinni.

Ég vil undirstrika að málefni Ríkisútvarpsins eru öll uppi á borðinu eins og menn vita. Ég hef til athugunar málefni Ríkisútvarpsins alls, ekki eingöngu lífeyrisskuldbindingarnar sem slíkar, og vonast til að hægt verði að ræða málefni Ríkisútvarpsins mun ítarlegar eftir áramót. Lífeyrisskuldbindingarnar verða hluti af þeirri umræðu sem við munum taka þá.

Það skiptir að mínu mati miklu máli að við sem berum hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti — ég veit að háttvirtum þingmanni er annt um Ríkisútvarpið — reynum að ræða það á heildstæðan hátt í stað þess að handpikka út ákveðinn þátt af þeim vandamálum sem Ríkisútvarpið á við að etja, þ.e. fjárhagsvandann.

Ég vil jafnframt undirstrika að það er von mín að hægt verði að leysa úr þessum málum á næsta ári. Ég mun leggja mig fram um það. Ég hef margoft sagt að eitt af forgangsverkefnum mínum er að endurskipuleggja hið mikilvæga hlutverk Ríkisútvarpsins, ekki síst í ljósi hinnar miklu og hörðu samkeppni sem Ríkisútvarpið á við að etja í dag.