131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins.

119. mál
[14:02]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Hæstv. menntamálaráðherra svarar því til að ekki eigi að handpikka út ákveðin vandamál í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég er henni fullkomlega ósammála um þetta. Ég held einmitt að þegar litið er á Ríkisútvarpið og framtíð þess, sama hvaða skoðanir menn hafa á því, þá eigi að handpikka ákveðin vandamál og setja þau út fyrir sviga.

Eitt af þessum vandamálum er þetta sögulega vandamál sem varðar lífeyrisskuldbindingar upp á 2,5 milljarða kr., rúmar 200 millj. kr. á ári. Þetta er vandamál sem á ekki að vera til. Aðrar stofnanir ríkisins þurftu ekki að gjalda þessara breytinga sem gerðar voru og voru mjög þarfar á sínum tíma, árin 1993 og 1994. En Ríkisútvarpið þarf að gera það vegna þess að Ríkisútvarpið er ekki á fjárlögum. Það er B-hluta-stofnun sem aflar sér tekna með öðrum hætti, er vísað á afnotagjöld og auglýsingar. Þannig er þetta.

Það er órökrétt að blanda því máli saman við almenna endurskoðun á Ríkisútvarpinu. Ríkið á auðvitað að taka að sér þessa 2,5 milljarða kr. og sjá um að greiða þá upphæð án þess að blanda henni saman við aðrar skuldbindingar Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið á hins vegar að sjálfsögðu að reikna með lífeyrisgreiðslum gagnvart núverandi starfsmönnum sínum. Það er sjálfsagt og eðlilegt og á að koma inn í reikningana.

Svo vil ég biðja hæstv. menntamálaráðherra að segja okkur hér á eftir aðeins nánar frá þessari endurskoðun á Ríkisútvarpinu. Við höfum spurt um hana, m.a. fulltrúa ráðherra í menntamálanefnd. Þar voru svörin þau að þeir vissu ekki neitt, gætu ekkert sagt og væri ekki heimilt að skýra frá því. Síðan er vitnað í þetta, m.a. í erindisbréfum fjölmiðlanefndar og víðar, en ekkert kemur frá menntamálaráðherra um hverjir sitja í þessari nefnd. Hvað er hún að kanna og hver eru markmiðin með endurskoðuninni? Af hverju fer hún ekki fram í samráði við starfsmenn Ríkisútvarpsins, við stjórnarandstöðuna, við allan almenning, við þann félagsskap sem stofnað hefur verið til í kringum Ríkisútvarpið o.s.frv.? Hvers lags vinnubrögð eru þetta, forseti?