131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Símenntun.

133. mál
[14:16]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin úti á landi hafa valdið straumhvörfum í aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að nám í gegnum fjarnám og uppbyggingu þessara stöðva sem eru öflugar og mikilvægar í sínum héruðum. Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á áðan, að gerður sé langtímasamningur við símenntunarstöðvarnar og þær heyri undir menntamálaráðuneytið eins og aðrar menntastofnanir í landinu, en rekstur þeirra sé ekki á hverju hausti undir því kominn hvernig fer með fjárlagavinnu og fjárlagagerð. Það þarf að tryggja hag og grundvöll símenntunarstöðvanna til framtíðar, við munum hvernig fór í fyrra en þá lá við að margar þeirra færu á hliðina þegar útlit var fyrir að ekki fengjust næg fjárframlög til þeirra, þótt það bjargaðist á elleftu stundu ef svo má segja.