131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Símenntun.

133. mál
[14:19]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram í málum hv. þingmanna, t.d. að símenntunarmiðstöðvarnar ollu straumhvörfum á sínum tíma þegar þær tóku til starfa og Alþingi og ríkisvaldið hefur, að mínu mati, komið nokkuð myndarlega að rekstri þeirra, þó þær séu eins og við vitum nokkuð sjálfstæðar.

Eitt af því fyrsta sem ég gerði í starfi mínu sem menntamálaráðherra var að skipa starfshóp í náinni samvinnu og samráði við símenntunarmiðstöðvarnar og það félag sem þær hafa myndað með sér kallast Kvasir. Ég vonast til að niðurstöður þess hóps liggi fyrir innan kannski tveggja mánaða, en markmiðið með starfi hópsins var fyrst og fremst að tryggja starfsgrundvöll símenntunarmiðstöðvanna, sem eru svo mikilvægar fyrir landsbyggðina, til framtíðar.

Í þessu samhengi er líka rétt að minnast á að við erum að endurskoða, í samvinnu við heimamenn bæði á Ísafirði og á Egilsstöðum, hvernig hægt er að byggja upp öflug þekkingarsetur þar sem til að mynda símenntunarmiðstöðvarnar koma til með að gegna mikilvægu hlutverki.

Frú forseti. Á síðustu árum, frá 1998, hefur því orðið gríðarleg gróska í símenntunarmálum Íslendinga, frá því ríkisstjórnin samþykkti átak í eflingu símenntunar. Skólarnir, framhaldsskólarnir, eru opnir fólki sem vill stunda þar nám. Símenntunarmiðstöðvarnar eru líka opnar og gróskan, tækifærin og valfrelsið hefur aldrei verið meira fyrir fólk sem vill eða hyggst stunda nám.