131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:23]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Sigurjóni Þórðarsyni fyrir þessa fyrirspurn, en fyrirspurnin hljóðar svo:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fiskvinnslunám verði endurvakið?“

Eins og við vitum hefur gengið illa að halda úti skólanámi í fiskvinnslu á Íslandi, þrátt fyrir hversu mikilvæg atvinnugreinin hefur lengi verið fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar. Fiskvinnsluskólinn var stofnaður til að efla menntun í greininni á sínum tíma. Hann hætti því miður starfsemi fyrir nokkrum árum vegna dræmrar aðsóknar, en hann starfaði eftir fjögurra anna skipulagi frá haustinu 1995 og útskrifaði síðustu nemendur sína vorið 2001, minnir mig. Tilraunir með sjávarútvegsbrautir í framhaldsskólum, sem hugmyndir voru um að tengdust fiskvinnslu, hafa því miður heldur ekki skilað þeim árangri sem vænst var við að laða ungt fólk að námi í atvinnugreininni. Nemendur hafa einfaldlega ekki sýnt þessu námi áhuga.

Ýmsar hliðar þessa máls hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu með það í huga að koma á skipulegu námi í fiskvinnslu sem væri í senn í samræmi við óskir greinarinnar, sem er afar mikilvægt, og einnig líklegt til að laða nemendur að náminu.

Starfsgreinaráð sjávarútvegs- og siglingagreina hefur haft málefni menntunarinnar í fiskvinnslu til umhugsunar og athugunar, sem og í öðrum greinum sjávarútvegs. Í tillögum ráðsins hefur verið bent á mikilvægi þess að fram fari þarfagreining innan fiskvinnslunnar í því skyni að kortleggja hvernig eðlilegast sé að haga menntuninni svo hún komi sjálfri greininni að gagni.

Í ljósi fenginnar reynslu er mikilvægt að næstu skref í menntamálum fiskvinnslunnar verði stigin í mjög nánu samráði við fyrirtæki í greininni.

Ráðuneytið hefur nú þegar skipað starfshóp um þróun starfsnáms í framleiðslutækni. Hópnum er ætlað að setja fram hugmyndir um nám í framleiðsluiðnaði, bæði grunn- og sérnám. Tillögurnar skulu miðast við að námið henti þeim sem nýlega hafa lokið grunnskólanámi, svo og þeim sem hafa starfsreynslu sem meta má við inntöku í námið. Námið á að henta bæði sem staðar- og fjarnám. Hópurinn mun sjálfsagt og eðlilega fjalla um menntunarmál fiskvinnslunnar, þar sem hún er ein af fleiri greinum framleiðsluiðnaðar á Íslandi. Mun verða höfð hliðsjón af niðurstöðum hópsins, svo og tillögum starfsgreinaráðs, sjávarútvegs- og siglingagreina, áður en frekari ákvarðanir verða teknar um uppbyggingu eða endurvakningu fiskvinnslunáms í landinu.