131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:27]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sú kreppa sem nám í fiskvinnslu virðist hafa lent í hér á landi er í raun og veru mikið undrunarefni. Einnig má benda á að eftirspurn eftir skipstjórnar- og stýrimannamenntun virðist líka hafa dalað mjög og þar hefur skólum fækkað mikið og er reyndar bara einn eftir í landinu.

Mér datt í hug í framhaldi af þessari umræðu hvort ekki væri ástæða til að reyna að endurskoða þessa hluti, eins og mér skilst reyndar að sé verið að gera. Nefndin sá m.a. þann möguleika að við höfum hér sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Netagerðarnámið á Suðurnesjum hefur einmitt komið að þeim skóla. Það mætti athuga hvort sá skóli gæti ekki líka boðið upp á kennslu í fiskvinnslu, því að sjálfsögðu þarf að kenna fólki í þróunarlöndum að verka og vinna fisk. Það kunnum við Íslendingar jú svo sannarlega.

En það þarf að endurskoða þessa hluti frá grunni. Það er alveg stórfurðulegt að þetta nám skuli ekki blómstra hér á landi.