131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Útvarp á öðrum málum en íslensku.

166. mál
[14:34]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fyrirspurnir mínar eru svohljóðandi:

1. Hefur á þessu ári verið veitt leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku skv. 7. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000?

2. Hvaða útvarpsstöðvar hafa nú slíkt leyfi og hverjar eru hinar sérstöku ástæður til slíkra útsendinga, áskildar í fyrrnefndri lagagrein?

Í útvarpslögum er gert ráð fyrir því að íslenskar útvarpsstöðvar útvarpi á íslensku, með íslensku tali, með íslenskum texta eða, í undantekningartilvikum, með endursögn eða kynningu á íslensku. Þar að auki er öllum útvarpsstöðvum lögð sú skylda á herðar að efla íslenska tungu. Raunar finnst mér þar ofgert og ætti aðeins að leggja Ríkisútvarpinu þá skyldu á herðar.

Hins vegar held ég það sé réttur andi í útvarpslögunum að gera ráð fyrir því að íslensk tunga sé tungumál þeirra útvarpsstöðva sem hér eru reknar, nema sérstakar ástæður séu fyrir öðru. Enda segir í lögunum að það skuli heimilt, með leyfi forseta:

„ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.“

Þetta hefur aðeins verið rætt að undanförnu, sérstaklega í tengslum við að Skjár 1 hóf útsendingar frá ensku knattspyrnunni og fjölgaði leikjum sem sendir voru út. Sumum þeirra er lýst af íslenskum þulum en sumum ekki og þar er notast við frumþulina ensku.

Ég tel, og held að þingheimur sé með mér í því og allur almenningur á Íslandi, að við eigum í dag — daginn eftir dag íslenskrar tungu — að efla veg íslenskrar tungu, að það sé okkar hlutverk. Hins vegar er ljóst að umhverfið breytist frá áratug til áratugar. Nú búum við kannski við aðra hætti en voru þegar þessi lög voru samþykkt, hvað þá önnur eldri. Nú er til staðar gervihnattasjónvarp og fjöldi stöðva sem menn geta séð á heimilum sínum á hverjum degi. Úrvalið eykst mjög með stafrænni byltingu sem þegar er hafin. Það getur vel verið að við eigum að haga þessu með öðrum hætti eða færa í annan búning það markmið okkar að íslenska sé tunga okkar á Íslandi og þær stöðvar sem við veitum leyfi til útvarps, sem hér eru reknar, eigi að vera á íslensku.

Mér finnst málið umræðuvert en vil þó ekki gefa neinn afslátt á tungunni. Það getur hins vegar vel verið að við eigum með einhverjum hætti að styðja stöðvarnar í að halda uppi þeim metnaði með öðrum hætti en að leika einhvers konar mállögreglu.

Ég vil gjarnan heyra hvað (Forseti hringir.) menntamálaráðherra segir um þetta og hvaða ástæður eru fyrir því að hér er útvarpað á öðrum tungumálum en íslensku.