131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Útvarp á öðrum málum en íslensku.

166. mál
[14:40]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er vissulega ágætt að AA-samtökin og XA-Radíó hafi fengið undanþágu til að útvarpa á öðrum málum en íslensku til að þau geti gætt nafnleyndar. En ráðherrann kom inn á að fyrir liggur kæra vegna útsendinga Skjás 1 á erlendum tungum. Það er alkunna að þar er um að ræða fótboltaleiki og fleira slíkt efni.

Ég vildi kalla eftir viðhorfum ráðherra til þeirra útsendinga: Telur hann að þau lögbrot, sem væntanlega eru framin þar, kalli á endurskoðun laganna og þá með hvað að markmiði? Eigum við að rýmka heimildina? Eigum við að veita þeim heimild til að útvarpa og sjónvarpa á ensku í þessu tilfelli eða öðrum erlendum tungumálum? Eða á að taka harkalega á slíkum brotum að hennar mati? Hver eru viðhorf hennar til þeirrar stöðu sem uppi er? Það liggur skýrt fyrir um hvað er spurt, þ.e. sjónvarpsútsendingar Skjás 1 þar sem ekki er útvarpað á íslenskri tungu.