131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[14:47]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Verulegar vanáætlanir hafa verið á fjölda þeirra nemenda sem sækja vilja nám við háskólana við gerð fjárlaga undanfarin ár. Afleiðingar þessa birtast okkur með ýmsu móti. Háskóli Íslands hefur gripið til aðgerða til að reyna að stemma stigu við nemendafjölda með ýmsum hætti. Ein þeirra leiða sem skólinn greip til í sumar var að nýta ekki undanþáguheimildir sem veita nemendum með stúdentspróf úr starfsnámsbrautum inngöngu í Háskóla Íslands.

Við gerð síðustu aðalnámskrár voru þrjár brautir framhaldsskóla skilgreindar sem bóknámsbrautir, félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut og málabraut. Aðrar brautir eru skilgreindar sem starfsnámsbrautir og má m.a. nefna viðskiptanám í framhaldsskólum.

Inntökuskilyrði Háskóla Íslands hafa miðast við bóknámsbrautir í flestum deildum. Háskólinn hefur þó haft heimild til að veita undanþágur frá þessum inntökuskilyrðum um bóknám og hefur nýtt undanþáguheimildina undanfarin ár í flestum deildum. Nú er hins vegar staðan gerbreytt því Háskóli Íslands ákvað í sumar að nota heimildina ekki sem hluta af aðhaldsaðgerðum sem eru til komnar vegna uppsafnaðs vanda vegna umframnemenda síðan árið 2001.

Sem dæmi má nefna að umsóknum nemenda með stúdentspróf á viðskiptabrautum framhaldsskólanna var hafnað í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í sumar. Viðskiptafræðinám á framhaldsskólastigi er því ekki lengur sjálfsagður undirbúningur fyrir háskólanám heldur háð undanþágum. Þetta þykir mér, virðulegi forseti, undarleg tilhögun.

Þó svo að flestar deildir Háskóla Íslands hafi ákveðið á haustdögum að koma til móts við þá nemendur núna er engin trygging fyrir þessa nemendur til framtíðar litið. Sú staða sem er uppi er algjörlega óviðunandi, að nemendur af öðrum brautum en félagsfræði-, mála- og náttúrufræðibraut þurfi að búa við þá óvissu hvort Háskóli Íslands noti undanþáguheimildir þetta árið eða ekki. Þetta getur ekki orðið til þess að svokallaðar starfsnámsbrautir eflist og styrkist í framtíðinni ef framtíð nemenda með stúdentspróf af þeim brautum er háð undanþágum. Þvert á móti er hætta á því að sífellt færri nemendur sæki sér stúdentspróf af starfsnámsbrautum. Það getur ekki verið sú framtíðarsýn sem við höfum í menntamálum.

Virðulegi forseti. Við sjáum verulega annmarka á gildandi námskrá fyrir framhaldsskóla. Skilgreiningar innan hennar á bóknámi annars vegar og starfsnámi hins vegar er erfið fyrir nemendurna og einnig fyrir háskólana. Framkvæmdin er flókin. Breytingin sem gerð var á námskránni 1999 setti framhaldsskólastigið í mikinn vanda.

Til að reyna að varpa ljósi á stöðuna hef ég lagt fram fjórar spurningar til hæstv. menntamálaráðherra. Mér gefst ekki tími til að lesa þær upp en þær liggja fyrir á þingskjali 185.