131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[15:00]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því að Háskóli Íslands sé í fjársvelti. Við vitum að háskólinn þarf á meiri fjármunum að halda. Engu að síður er hann ekki í fjársvelti heldur hefur hinni miklu aðsókn í Háskóla Íslands verið mætt eftir bestu getu af hálfu ríkisvaldsins.

Ég minni á að það hefur verið menntasókn í fleiri löndum, þó ekki eins mikil og hér á landi, menntasóknin er hvað mest á Íslandi, til að mynda innan Evrópuríkja og OECD. Henni hefur víða verið mætt þannig að fjárframlög til háskólanna hafa verið skorin niður á grundvelli fjölda. Þannig höfum við ekki reynt að mæta þessu heldur er miklu frekar reynt að láta fjármagnið fylgja í samræmi við þau nemendaígildi sem eru samþykkt á Alþingi lögum samkvæmt.

Ég tek undir það sem fram kom m.a. í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um stúdentsprófið, ég lít á það nákvæmlega sömu augum og hv. þingmaður. Stúdentspróf, hvort sem það er á starfsnáms- eða bóknámsbraut, á að gilda í háskólunum. Svo virðist sem stúdentsprófin séu ekki aðgreind eftir tegund þess nema í Háskóla Íslands. Engu að síður geta deildir innan háskólanna sett ákveðnar kröfur, verkfræðideildin í Háskóla Íslands setur t.d. ákveðnar kröfur varðandi stærðfræðiþekkingu sem eru eðlilegar. En stúdentsprófið á að vera algilt og það á ekki að greina það eftir hvers konar tegund það er. Við eigum að efla og auka starfsnámið og sérstaklega virðingu þess. Tækifærin eru til staðar og við eigum að grípa þau.