131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tónlistarnám.

187. mál
[15:02]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort í undirbúningi sé lagabreyting þess efnis að ríkisvaldið beri kostnaðinn af tónlistarnámi á framhaldsstigi eins og öðru námi á framhaldsskólastigi.

Tilgangurinn með fyrirspurn minni er að fá botn í þá óvissu sem ríkt hefur um framhaldsnám á tónlistarstigi. Margir nemendur hafa lent í vanda vegna þess að ríkið hefur ekki staðið straum af kostnaði af tónlistarnámi á framhaldsstigi líkt og öðru námi á framhaldsstigi sem er skylda ríkisvaldsins. Ríkisvaldið hefur að mínu mati vikist undan ábyrgð sinni að greiða fyrir tónlistarnámi á framhaldsstigi líkt og öðru námi á því stigi.

Tek ég undir það sem fram kom í leiðara Morgunblaðsins 8. júlí 2004, með leyfi forseta:

„Slíkt fyrirkomulag er þó ekki til þess fallið að stuðla að jafnrétti til náms þar sem sveitarfélögin þurfa að leggja mat á einstök tilfelli á framhaldsstigi og borga með nemendum í nám á höfuðborgarsvæðinu.“ — Þar sem flestir skólarnir eru.

Ég frétti að samkomulag hafi verið gert á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldsins um að ríkið greiði fyrir tónlistarnám nemenda í framhaldsskólum. Það er ágætt mál og til bóta. Það er skref í rétta átt en alls ekki nóg. Það sem eftir stendur eru nemendur sem stunda tónlistarnám á framhaldsstigi en eru ekki í framhaldsskólum, t.d. nemandi sem einungis stundar tónlistarnám á framhaldsstigi en hefur lokið framhaldsskóla.

Samkomulaginu þarf að mínu mati, ef rétt reynist að um það sé að ræða, að fylgja eftir með heildstæðri endurskoðun laga um tónlistarfræðslu þar sem skilin eru skýrð mjög rækilega á milli stiga í tónlistarnáminu með það að markmiði að skýrt sé hver eigi að bera kostnaðinn af náminu, að það sé skýrt að ríkið eigi að standa undir framhaldsnámi í tónlistarmenntun bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi eins og öðru námi í landinu á framhaldsskólastigi og háskólastigi svo nemendurnir lendi ekki í óvissunni og vandanum. Það er óþolandi ástand og verður að skýra vel og vandlega.

Skilin á milli stiganna eru um margt óljós og kalla á endurskoðun laganna ásamt því að skýra kostnaðarábyrgð hvers og eins. Endurskoðun laga um tónlistarskóla stendur yfir. Þann 18. október 2003 skipaði hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nefnd sem átti að gera tillögur um heildarendurskoðun og fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Nefndin átti að ljúka störfum fyrir síðustu áramót, fyrir næstum ellefu mánuðum.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður starfi um heildarendurskoðun um tónlistarskóla?

Þá er mikilvægt að endurskoða lögin í heild sinni með það að markmiði að ekki komi upp ágreiningsmál um kostnað námsins sem einatt bitnar á nemendunum og gerir þeim erfitt fyrir að stunda nám sitt, eins og kom upp í fyrrasumar þegar allt fór á flot hver átti að borga með hverjum. Reykjavíkurborg gaf það út að hún ætlaði ekki að greiða fyrir framhaldsnám tónlistarnemenda úr öðrum sveitarfélögum eins og eðlilegt er enda er ábyrgðin ríkisins. Það þarf því að breyta lögunum svo þetta sé alveg skýrt.