131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tónlistarnám.

187. mál
[15:06]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr:

„Er í undirbúningi lagabreyting þess efnis að ríkisvaldið beri kostnaðinn af tónlistarnámi á framhaldsstigi eins og öðru námi á framhaldsskólastigi?“

Í tilefni af fyrirspurninni er rétt að rifja upp að fyrirrennari minn, eins og hv. þm. kom inn á, gerði þingheimi grein fyrir því í umræðum utan dagskrár í október árið 2003 að samhliða viðræðum ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði verið ákveðið að skipa nefnd sem skyldi gera tillögur um heildarendurskoðun á lögunum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.

Nefnd um endurskoðun laga um þennan fjárhagslega stuðning við tónlistarskóla sem ég skipaði sl. vor hefur ekki lokið störfum en ég geri þó ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum innan tíðar. Ég hef því í hyggju að leggja fram síðar á þessu þingi, ef færi gefst, frumvarp sem byggt verður á tillögum nefndarinnar. Á þessu stigi er því ekki tímabært að gera grein fyrir einstökum tillögum nefndarinnar og rétt, frú forseti, að nefndin fái að ljúka störfum fyrst.

En aðeins varðandi orðalagið hvað varðar kennslukostnað vegna tónlistarnáms á framhaldsstigi, eins og fram kom í fyrirspurninni, er rétt að taka fram að námsstig í tónlist, sem áður greindust í átta stig, nefnast nú grunn-, mið- og framhaldsstig samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskólanna frá árinu 2000. Framangreind námsstig í tónlist fylgja ekki hefðbundnum skólastigum og því getur nemandi í grunnskóla verið kominn á framhaldsstig og nemandi í framhaldsskóla getur verið á miðstigi. Að því leytinu til tel ég að fyrirspyrjandi gefi sér ekki alveg réttar forsendur um samsvörun námsstiga í tónlist og skólastiga í hinu almenna námi.

Það er mér hins vegar ánægjuefni að segja frá því að um síðustu mánaðamót var undirritað samkomulag á milli menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu og fyrirkomulag tónlistarnáms á framhaldsskólastigi. Samkomulagið tryggir að nemendur í framhaldsskólum sem samhliða stunda nám í tónlistarskóla og fá það metið til eininga á stúdentsprófi eða lokaprófi frá framhaldsskóla geta nú notfært sér þessa námsleið óháð því hvar þeir eiga lögheimili. Með samkomulaginu er því leyst úr vanda framhaldsskólanemenda sem hafði verið synjað um skólavist í tónlistarskólum vegna nýlegra reglna sveitarfélaga um greiðslu kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Það er rétt að geta þess að líklegt er að breytingin kosti ríkið u.þ.b. 40 millj. kr. miðað við þetta ár sem kemur til uppgjörs síðar. Líklegt er og það er spá mín að undir eins og þetta fyrirkomulag er komið á, þ.e. að ríkið greiði tónlistarnám í framhaldsskólunum sem getur verið metið til eininga til stúdentsprófs, komum við til með að sjá töluverða aukningu á nemum sem fari þessa leið og að þá komi kostnaðurinn jafnframt til með að aukast.