131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tónlistarnám.

187. mál
[15:10]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta voru réttar fréttir sem ég hafði um samkomulagið á milli ríkisvaldsins og Samtaka íslenskra sveitarfélaga, að ríkið muni greiða fyrir tónlistarnám nemenda á framhaldsstigi í framhaldsskólum, eins og þeim ber afdráttarlaus skylda til að gera.

En þar er ekki nema hálfur vandinn leystur. Það er mjög mikilvægt að nefndin sem hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, skipaði og kynnti úr ræðustól á Alþingi 18. október 2003 ljúki störfum. Henni var uppálagt að ljúka störfum fyrir 31. desember 2003. Nú styttist í 31. desember 2004 og þá eru liðnir tólf mánuðir frá því að nefndin átti að skila af sér.

Hv. þm. Mörður Árnason rifjaði upp ákaflega athyglisverð tíðindi sem gerðust fyrir nokkrum dögum um uppnámið og uppþotið sem varð vegna þess að nefndin treysti sér ekki til að gera grein fyrir tillögum sínum, næstum ellefu mánuðum eftir að hún átti að ljúka störfum. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð.

Þá er rétt að inna hæstv. ráðherra eftir því við hverja nefndin hefur haft samráð um lagasetninguna og hvenær hún telji að lagasetningin muni líta dagsins ljós, hvort það verði fyrir áramót á þessu ári svo ekki líði meira en tólf mánuðir frá því að nefndin átti að skila af sér og að hún geri það.

Þó að samkomulagið um kostnað nemenda í tónlistarnámi á framhaldsskólastigi sé hið besta mál og skref í rétta átt og leysi úr ákveðnum vanda sem hefur valdið mörgum nemendum erfiðleikum er endurskoðun á lögunum um tónlistarfræðsluna jafnbrýn eftir sem áður. Því skora ég á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að nefndin drattist til þess að ljúka störfum sínum, næstum ári eftir að hún átti að ljúka þeim.