131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tónlistarnám.

187. mál
[15:13]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég skil ekki þetta uppnám hjá hv. þingmönnum og að það sé einhver leynd og að ekki sé haft samráð við aðila sem að málinu koma. Þeir sem sitja í nefndinni eru tónlistarskólastjórar, tónlistarkennarar, sveitarfélögin og ríkið. Nefndin er einfaldlega enn að störfum og ef hún telur sig þurfa meiri tíma til þess að fara yfir lögin en áætlaður var hljóta að vera málefnaleg rök fyrir því og gildar ástæður. (Gripið fram í.)

Ég stjórna ekki nefndinni, en samkvæmt mínum fregnum af störfum nefndarinnar (Gripið fram í.) samkvæmt fréttum frá nefndinni, ef ég fengi að ljúka máli mínu, hv. þm., er ætlunin að ljúka störfunum sem fyrst. Það er verið að reyna að gera það. Það sem ég vonast auðvitað til er að tillögurnar frá nefndinni verði til þess fallnar að það sé vandaður undirbúningur og að það verði vandað frumvarp til umræðu í þinginu um mikilvæga starfsemi tónlistarskólanna.