131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Aðsókn að Háskóla Íslands.

219. mál
[15:14]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Verulegur uppsafnaður vandi blasir nú við Háskóla Íslands. Þessi uppsafnaði vandi er að miklu leyti tilkominn vegna þess að yfirvöld menntamála hafa vanáætlað nemendafjölda við háskólann allverulega við fjárlagagerð frá árinu 2001.

Árið 1999 var gerður kennslusamningur við Háskóla Íslands í samræmi við lög um háskóla frá árinu 1998. Var þessi kennslusamningur að mörgu leyti fagnaðarefni og kom samskiptum skólans og fjárveitingavaldsins í fastara form en verið hafði. Grunnurinn í kennslusamningnum er nemendaígildi sem greitt er með til háskólans, þ.e. samanlagður einingafjöldi þreyttra eininga deilt með 30 einingum sem teljast fullt nám.

Hins vegar hefur það gerst frá árinu 2001 að nemendafjöldi sem greitt er með til háskólans er verulega vanáætlaður. Svona hefur þetta gengið í fjögur ár í röð og því er ljóst að uppsafnaður halli er orðinn allverulegur.

Ég ætla að tæpa á nokkrum staðreyndum málsins.

Fyrsta árið eftir að kennslusamningurinn var gerður, fjárhagsárið 2000, fékk Háskóli Íslands að fullu greitt fyrir fjölgun nemenda úr 3.885 í 4.176. Árið 2001 var umframfjölgun nemenda 189 sem metið er á tæpar 124 milljónir. Nemendafjöldi það ár fór þannig í 4.365. Ekki var gert upp á árinu 2001 en árið 2002 fékkst 101 milljón vegna nemendauppgjörs árið 2001. Eftir stóðu 23 milljónir það ár og varð það einungis byrjunin á hinum uppsafnaða vanda.

Árið 2002 voru virkir nemendur 4.667 og stóðu eftir það ár um 135 millj. kr. sem ógreitt var fyrir nemendur. Áfram get ég talið svona, virðulegi forseti. Á árinu 2003 voru virkir nemendur orðnir 5.256. Ráðherra hafði lofað að greiða fyrir 4.950 og var greitt fyrir þá með uppgjöri sem nam 214 millj. kr. Eftir stóð að ekki var greitt fyrir heila 306 nemendur.

Á þessu ári, árinu 2004, er áætlað að virkir nemendur verði um 5.800 en í fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 5.200 nemendum. Mismunurinn samkvæmt kennslulíkani gæti því numið rúmlega 300 millj. kr. Það munar, virðulegi forseti, 600 nemendum í fullu námi á áætlun yfirvalda og háskólans.

Fyrir þetta tímabil, 2001–2004, hefur Háskóli Íslands þannig orðið af um það bil 600–700 millj. kr. vegna vanáætlana við fjárlagagerð og hefur hann nú gripið til ýmissa ráða til að reyna að sporna við þessari nemendafjölgun, eins og kom fram í umræðu áðan um nemendur með stúdentspróf á starfsgreinabrautum.

Aðsókn í Háskóla Íslands hefur aukist verulega undanfarin ár og er það þróun sem við eigum að fagna. Háskóli Íslands hefur tekið við þeim nemendum sem sækja þar um nám en þeim er gert það erfitt með þessu áframhaldi, virðulegi forseti, og þetta verður að leiðrétta hið allra fyrsta.