131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Aðsókn að Háskóla Íslands.

219. mál
[15:17]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og margoft hefur komið fram hefur orðið afskaplega ánægjuleg þróun í háskólamálum Íslendinga á undanförnum fimm árum. Í raun hefur orðið algjör sprenging í háskólamálum og á fleiri sviðum, eins og í framhaldsskólanum, en það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þá miklu grósku sem er í háskólamálum. Samkeppnin, valfrelsið, fjármagnið og fjöldi nemenda hefur aldrei verið meira og betra.

Í fyrra lagi spyr hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hvernig ráðherra ætli að bregðast við aukinni aðsókn í Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands ákveður á grundvelli fjárframlaga til skólans hversu marga nemendur hann innritar og með hvaða hætti hann bregst við aukinni aðsókn í skólann eins og aðrir skólar á háskólastigi. Í fjárlögum ár hvert er gert ráð fyrir tilteknum fjölda nemendaígilda við Háskóla Íslands eins og aðra skóla. Háskólinn hefur um nokkurt skeið tekið inn fleiri nemendur í skólann en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í þeim tilfellum hefur ráðuneytið reynt að koma til móts við skólann eins og kostur er. Fjölgun nemenda við Háskóla Íslands hefur verið mjög hröð. Árið 1999 voru 5.930 nemendur skráðir í skólann en árið 2004 voru þeir 9.117. Svo hröð fjölgun sem ekki hefur verið í neinu samræmi við fjölda útskrifaðra nemenda úr framhaldsskólunum hefur sett mikinn þrýsting á aukin fjárframlög til skólans sem reynt hefur verið að mæta.

Samkvæmt áætlun Háskóla Íslands og fjárlögum árið 2005 er komið jafnvægi á milli inntöku nemenda og fjárframlaga til skólans. Þar er gert ráð fyrir 5.450 nemendaígildum sem er nokkurn veginn sama tala og Háskóli Íslands óskaði eftir við undirbúning fjárlagafrumvarpsins.

Það er líka rétt að geta þess að hin mikla aukning sem hefur orðið í háskólanám hefur ekki verið í grunnnámið sem má segja að sé aðeins ódýrara, heldur hefur aukningin verið fyrst og fremst í meistaranám við Háskóla Íslands.

Í síðara lagi er spurt hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að Háskóli Íslands fái greiðslur fyrir stúdenta sem sóttu þar nám en ekki var greitt með á árunum 2001–2004.

Framlög til Háskóla Íslands hafa á tímabilinu tekið mið af samningum og endanleg ákvörðun um fjárveitingar birtist í fjárlögum ár hvert. Á tímabilinu 2001–2004 hefur Háskóli Íslands ítrekið tekið inn fleiri nemendur en samningar og fjárlög gerðu ráð fyrir. Hluti af þessu hefur verið bættur með aukafjárveitingu. Árið 2002 fékk Háskóli Íslands 141 millj. kr. aukafjárveitingu vegna nemendafjölgunar og árið 2003 214 millj. kr. fjárveitingu þegar hámörk voru hækkuð úr 4.500 nemendaígildum í 4.950. Í fjárlögum 2004 er gert ráð fyrir 5.200 ársnemendum við háskólann. Skólinn hefur skilað inn ársáætlun þar sem sýnt er fram á að fjárveiting ársins geti skilað hallalausum rekstri þrátt fyrir umframnemendur. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að Háskóla Íslands ber að haga rekstri í samræmi við fjárveitingu á fjárlögum, eins og öllum öðrum ríkisstofnunum. Taki skólinn inn fleiri nemendur en fjárlög gera ráð fyrir er það á ábyrgð háskólans. Ráðuneytið væntir þess að sjálfsögðu að ársáætlanir skólans standist eins og hjá öðrum undirstofnunum ríkisins.

Ég vil taka fram að það eru stöðug samskipti á milli Háskóla Íslands, háskólayfirvalda, rektors og ráðuneytisins. Þau samskipti hafa verið mjög jákvæð. Það er alltaf verið að reyna að vinna að framgangi háskólans. Það er búið að samþykkja að háskólinn geti farið út í vísindagarðana, út í þá einkaframkvæmd sem felst í því að vísindagarðar verði reistir við Háskóla Íslands og svo má einnig telja.

Ég vil einnig undirstrika að þessi mikli vöxtur í háskólamálum hefur líka verið í öðrum löndum. Ég kom líka inn á það í svari við annarri fyrirspurn hvernig mörg ríki hafa mætt þeirri miklu aukningu eins og við hér á landi höfum þurft að standa í. Það er mjög athyglisvert að þau mæta fjölgun háskólanema með hlutfallslegri lækkun opinberra framlaga. Þá er líka athyglisvert að á þessu tímabilil hefur hagvöxtur verið mun meiri á Íslandi en almennt innan OECD-ríkjanna, sérstaklega innan Evrópuhluta OECD þar sem hagvöxturinn hefur verið hér um 3,9% en 2% í Evrópuríkjunum. Það er því meiri raunbreyting á þessu öllu saman en sem nemur þeim krónutölum sem við erum að setja í framlög til háskólans.