131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Aðsókn að Háskóla Íslands.

219. mál
[15:24]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér þótti svar hæstv. ráðherra ákaflega athyglisvert því það sem hún gerði hér áðan var að vísa frá sér allri ábyrgð á því hvort fólki á Íslandi gæfist kostur á háskólanámi eða ekki. Hún vísaði allri ábyrgð á hendur háskólunum. Ég ætla að minna á að Kennaraháskóli Íslands hefur þurft að vísa frá um þúsund nemendum undanfarin mörg ár. Hann hefur ekki fengið leyfi til að fjölga eins og hann telur hagkvæmt og þörf á, og Háskóli Íslands hefur m.a. tekið við þeim sem ekki hafa fengið inni í þeim skóla.

Ég ítreka enn og aftur að það er frekar billega sloppið hjá hæstv. ráðherra að vísa frá sér ábyrgðinni á málaflokknum sem hún lögum samkvæmt og embættis síns vegna ber þó ábyrgð á.